Mikil spenna hefur nú myndast í baklandi stéttarfélaga í landinu, en tilkynnt var í gær um framboð Sólveigar Önnu Jónsdóttur til formanns embættis Eflingar.
Það er eitt stærsta stéttarfélag landsins með 28 þúsund félagsmenn. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, styður Sólveigu Önnu til forystu, en hann sigraði með yfirburðuðum í formannskosningunni í mars í fyrra og hlaut tæplega 63 prósent atkvæða.
Í VR eru 33 þúsund félagsmenn, en það er stærsta stéttarfélag landsins.
Sólveig Anna var gestur í Silfrinu á RÚV í gær, og sagði þar meðal annars að hún ætlaði sér að tala röddu láglaunafólks og fólksins á gólfinu. Það væri ekki hægt að sætta við það, að stórir hópar af fólki væru á launum sem ekki dygðu til þess að lifa af við núverandi aðstæður á húsnæðismarkaði. Sjálf er hún ófaglærður starfsmaður á leikskóla, en vinnur aðra vinnu með til að ná endum saman.
Í Morgunblaðinu í dag, segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, að hann muni ekki eftir að formaður VR blandi sér með jafn afgerandi hætti í kosningar í öðru félagi. „Mér finnst mjög athyglisvert að formaður VR sé með svona beinum hætti að hafa afskipti af kjöri í öðru félagi. Ég man ekki eftir að hafa heyrt af slíku,“ segir Gylfi í viðtali við Morgunblaðið.
Á sérstökum baráttu- og samstöðufundi í Rúgbrauðsgerðinni, í gær, þar sem fjallað var um stöðuna innan stéttarfélaga og meðal annars tilkynnt um hið nýja framboð hjá Eflingu, þá sagðist Ragnar Þór vona það, að áframhald yrði á „byltingunni“ hjá stéttarfélögunum. Hann sagði fulla þörf vera á endurnýjun forystunnar og að forysta verkalýðshreyfingarinnar þyrfti að tala máli fólksins á gólfinu.