Verðbólga á ársgrundvelli er nú komin upp í 2,4 prósent, en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5 prósent.
Samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í dag, þá lækkaði vísitala neysluverðs um 0,09 prósent milli mánaða í janúar. Flestar spár höfðu gert ráð fyrir lækkun á bilinu 0,4 til 0,5 prósent, og því hækkar ársverðbólgan mun meira en greinendur höfðu gert ráð fyrir.
Í greiningu Arion banka á þessum breytingum, kemur fram að miklu muni um óvænta hækkun á reiknaðri og greiddri húsaleigu, en hún var hærri en gert var ráð fyrir í flestum spám. „Óvænta efni mælingar Hagstofunnar að þessu sinni er reiknuð og greidd húsaleiga sem var hærri en gert var ráð fyrir. Það skýrist að miklu leyti af gríðarmikilli mældri hækkun húsnæðisverðs á landsbyggðinni sem setur liðinn reiknaða húsaleigu úr skorðum. Að öðru leyti er þróun undirliggjandi þátta ekki óvænt þó verðbólguþrýstingur sé að sönnu meiri en við væntum,“ segir í greiningu Arion banka.
Í mælingu Hagstofunnar hækkaði íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni um 5,4 prósent milli mánaða í janúar. Í greiningu Arion banka segir að oft hafi reynst erfitt að spá fyrir þróun á þessum lið vísitölunnar. „Verðbólguspámönnum hefur í gegnum tíðina reynst afar erfitt að fylgja því flökti á eftir. Þó svo undirvísitalan markaðsverð íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni sé alla jafna ekki ráðandi í breytingu vísitölunnar þá hefur sveifla af þessari stærð talsverð áhrif. Þróun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt mælingu Hagstofunnar var af öðrum toga milli mánaða. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,6% og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 2%. Það er sömuleiðis sveifla sem er fullkomlega úr takti við það sem sést hefur undanfarna mánuði.Heilt yfir hækkaði verð íbúðarhúsnæðis á landinu öllu um 0,8% milli mánaða í janúar samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Þrátt fyrir 16% hækkun á íbúðaverði á landsbyggðinni undanfarna 12 mánuði, þá lækkaði undirvísitalan fjórum sinnum á því tímabili en verð á höfuðborgarsvæðinu lækkuðu aldrei á milli mánaða. Því kæmi ekki á óvart að íbúðaverð á landsbyggðinni myndi lita einhverja mælingu ársins til lækkunar,“ segir í greiningunni.