Þórður Þórarinsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins segir nýskráningar í flokkinn fyrir oddvitaprófkjör flokksins í Reykjavík um liðna helgi hafa farið á pari við undanfarin prófkjör. Nýskráningar hafi verið heldur fleiri en fyrir síðasta prófkjör flokksins árið 2016 en heldur minni en árið 2014 í borginni.
Þórður segir í samtali við Kjarnann að flokkurinn gefi ekki upp nákvæmar upplýsingar um fjölda skráninga, hvorki um hversu margir séu skráðir í flokkinn né um nýskráningar.
Hann segir ekki um að ræða gríðarlegan fjölda nýskráninga fyrir prófkjörið um helgina.
Þátttakan í oddvitakjörinu var með dræmara móti í samanburði við önnur prófkjör flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar. Nú um helgina kusu alls 3.885 í oddvitaprófkjörinu. Árið 2013 þegar Halldór Halldórsson var kjörinn oddviti kusu 5.075 en 7.173 árið 2010 þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir var kjörin. Árið 2005 kusu 12.453 Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson þegar hann lagði Gísla Martein Baldursson í slag um oddvitasæti sjálfstæðismanna í borginni.
Þannig er ljóst að þátttaka í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefur farið hratt minnkandi. Hins vegar má búast við minni þátttöku þegar færri eru í framboði líkt og var nú í oddvitakjörinu þegar fimm voru í framboði og aðeins kosið um eitt sæti á listanum en ekki fleiri eins og áður hefur verið.
Eyþór Arnalds sigraði oddvitakjörið með miklum yfirburðum um helgina með 61 prósent atkvæða.