Efnahagur Breta verður í verri málum eftir útgöngu úr Evrópusambandinu hvernig sem samið verður um útgönguna.
Allir einstakir þættir og atvinnuvegir landsins munu finna fyrir erfiðleikum, og hagvöxtur verður að líkindum um 8 prósent minni en hann hefði annars verið.
Þetta kemur fram í skjölum frá breskum stjórnvöldum, sem birt hafa verið á vef BuzzFeed, en breska ríkisútvarpið BBC vitnar til skjalanna á vef sínum.
Íhaldsmaðurinn Iian Duncan Smith segir í viðtali að þessum skjölum verði að taka með fyrirvara, enda hafi flestir spádómar er varða Brexit og útgöngu Breta ekki ræst.
Skjölin sem vitnað er til innihalda greiningar sem unnar voru fyrir stjórn Theresu May, forsætisráðherra.
Bretar munu yfirgefa Evrópusambandið í mars 2019, en ekki hefur verið ákveðið í nákvæmisatriðum hvernig staðið verður að því.
Aðalsamningamaður Evrópusambandsins, Michel Barnier, kynnti afstöðu sambandsins til þess, hvernig staðið verður að útgöngunni eftir mars 2019, í gær, en í stórum dráttum munu Bretar í fyrstu þurfa að fara eftir helstu reglum sambandsins en ekki hafa neitt um það að segja hvernig þær eru.
Stefnt er að því að þessu tímabili, þar sem landið er að laga sig að nýjum veruleika, ljúki fyrir árslok 2020.