Í tölvupósti frá Ragnhildi Arnljótsdóttur, ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins, sem sendur var á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra daginn áður en ráðherra tilkynnti um ákvörðun sína um að gera breytingar á niðurstöðu hæfisnefndar um skipun á dómurum í Landsrétt, kemur fram að ráðuneytisstjórinn taldi skorta á rökstuðning ráðherrans. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í kvöld.
Í tölvupóstinum mælir ráðuneytisstjórinn með að Sigríður annað hvort fresti skipaninni í samráði við Alþingi eða legði breytingarnar í hendur Alþingis. Ætlaði ráðherra sér hins vegar að leggja til aðra umsækjendur en hæfisnefndin sagði ráðuneytisstjórinn að það yrði að gera með rökstuðningi og mati á öllum umsækjendum. Taldi Ragnhildur ráðherra ekki hafa lagst í það mat og bauðst hún til þess að starfsmenn ráðuneytisins fari í þá vinnu.
Í samtali við RÚV segir Sigríður að enginn sérfræðingur hefði ráðlagt henni að leggja tillöguna fyrir Alþingi með þeim hætti sem hún gerði. „Það var enginn sérfræðingur sem ráðlagði mér að gera eitt eða neitt. Ég tek auðvitað ábyrgðina,“ segir Sigríður. Hún segist sjálf vera sérfræðingur á þessu sviði og taki sínar ákvarðanir byggða á hennar hyggjuviti. Hún sé lögfræðingur og standi fyllilega við þessar ákvarðanir sínar og geri það ennþá.