Kaupþing getur keypt 13 prósent hlut íslenska ríkisins á 23 milljarða króna á grundvelli kaupréttar sem félagið hefur á hlutnum. Félagið er nú með það til skoðunar að kaupa hlutinn á grundvelli fyrrnefnds réttar og selja hann svo áfram á sama verði til íslenskra lífeyrissjóða og tryggingafélaga, að því er fram kemur í Markaðnum í dag.
Bókfært virði hlutar ríkisins er 29 milljarðar króna, og virði bankans samkvæmt því 223 milljarðar króna.
Í Markaðnum kemur fram, að lífeyrissjóðirnir þurfi að gefa svar fyrir helgi hvort þeir séu tilbúnir til viðræðna um kaup á hlut í bankanum.
Kaupréttarverðið miðast við samkomulag frá árinu 2009.
Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti íslenska ríkisins í bönkunum. Ríkið á Íslandsbanka 100 prósent og Landsbankann rúmlega 98 prósent.
Hvort af kaupunum verður mun ráðast af afstöðu fjögurra stærstu lífeyrissjóðanna – LSR, Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Gildis og Birtu. Þannig er talið nauðsynlegt að tveir sjóðanna hið minnsta hafi aðkomu að kaupunum eigi þau að verða að veruleika, segir í Markaðnum.