United Silicon hefur stefnt Magnúsi Garðarssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins, til staðfestingar á kyrrsetningu eigna hans og til greiðslu rúmlega fjögurra milljóna evra, andvirði um 530 milljóna íslenskra króna, í skaðabætur.
Í stefnu sem birt var í Lögbirtingarblaðinu í gær, og greint er frá í Fréttablaðinu í dag, segir meðal annars að Magnús hafi keypt lénið tenovapyromet.com og stofnað þar tölvupóstfangið mark.giese@tenovapyromet.com.
Í stefnunni kemur fram að svo virðist sem Magnús hafi meðal annars falsað umboð frá United Silicon til að geta verið í sambandi við suður-afríska félagið Tenova en bræðsluofn verksmiðjunnar var keyptur af félaginu. „Nýtti stefndi hið nýja tölvupóstfang til þess að staðfesta ranga skuldastöðu stefnanda gagnvart Tenova við endurskoðanda stefnanda hjá Ernst & Young, og undirritar stefndi jafnframt samhljóða staðfestingu sem áðurnefndur Mark Giese. Mark Giese sjálfur hefur hins vegar neitað því að hann hafi haft aðkomu að þessu póstfangi,“ segir í stefnu United Silicon.
United Silicon er nú komið í gjaldþrotameðferð, en skiptastjóri er Geir Gestsson hrl. Arion banki er stærsti kröfuhafi félagsins og hyggst hann reyna að nýta eignir félagsins til að koma verkefninu af stað með nýjum fjárfestum á nýjan leik. Samtals hefur bankinn afskrifað 4,8 milljarða vegna verkefnisins, en heildarskuldbindingar til viðbótar nema yfir 5 milljörðum. Lífeyrissjóðir hafa einnig tapað milljörðum á verkefninu.