Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir það „alveg galið“ að halda því fram að lausnin við að koma 70 þúsund manns til viðbótar fyrir á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum sé að byggja ný hverfi í útjaðri þess. Hann segir þá stefnu sem Eyþór Arnalds, nýkjörinn leiðtogi Sjálfstæðismanna í Reykjavík, boði í skipulags- og samgöngumálum, sem felst m.a. í andstöðu við gerð Borgarlínu, vera ein sú „alvarlegasta árás á umferðarmál og lífsgæði fólksins í Grafarvogi, Breiðholti, Árbæ, Grafarholti, Úlfarsárdal en líka Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ sem ég man eftir.“ Þetta sagði Dagur í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun.
Eyþór Arnalds sagði í yfirlýsingu sem hann birti á Facebook-síðu sinni 9. janúar, þegar hann tilkynnti um framboð í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins, að Reykjavík væri í miklum vanda í samgöngumálum. „Dýrar lausnir eins og Borgarlína munu auka á vandann með enn meiri þrengslum í gatnakerfinu. Reykjavík á að vera í fararbroddi í nútímalegum samgöngum en festast ekki í dýrum og þunglamalegum lausnum. Þrengingarnar hafa nú þegar búið til kransæðastíflu í gatnakerfi borgarinnar.“ Eyþór sagði enn fremur í þeirri yfirlýsingu að framboð á húsnæði í Reykjavík væri takmarkað vegna þess að verðið á því væri hátt. „Þétting byggðar á einstökum reitum hefur í raun skilað sér í hærra verði og dreifðari byggð á höfuðborgarsvæðinu. Raunfjölgun íbúða er lítil sem engin þegar tekið er tilliti til útleigu til ferðamanna.“
Alvarleg árás á efri byggðirnar
Dagur var spurður út í stefnu Eyþórs í Morgunútvarpinu í morgun. Þar sagði hann að borgarstjórn Reykjavíkur, sveitarstjórnir í nágrannasveitarfélögunum og Vegagerðin hafi verið að nálgast Borgarlínu í nokkur ár út frá umferðinni eins og hún sé í dag og þeirri sameiginlegu áskorun sem öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu standi frammi fyrir, að koma 70 þúsund nýjum íbúum fyrir til ársins 2040. Það séu álíka margir og búi í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ í dag.
150 milljarðar í mislæg gatnamót myndu samt auka tafir
Dagur sagði að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er í meirihluta allstaðar nema í Reykjavík, hafi verið að vinna með umferðarmódel sem sýndu hvað það þýðir ef 70 þúsund manna byggð sé bætt við í útjaðar höfuðborgarsvæðisins.
Að sögn Dags er verið að notast við ráð og umferðarútreikninga bestu sérfræðinga landsins og allir hlutaðeigandi hafi legið yfir málinu saman án þess að leggjast í pólitískar skotgrafir. „Í þessari skoðun hefur komið í ljós að jafnvel þótt við myndum setja 150 milljarða í mislæg gatnamót, ef við breytum ekki ferðavenjunum þá mun tafatíminn margfaldast á álagstímum. En við getum hins vegar haldið í horfinu með breyttum ferðavenjum og Borgarlínu jafnvel þótt fólki fjölgi svona mikið. Og allt er þetta í samhengi og allt þarf þetta að vera í jafnvægi. En það sem við fáum í leiðinni er miklu meiri lífsgæðaborg.“