Horfur krabbameinssjúklinga fara batnandi á alþjóðavísu en mikill munur er á milli þjóða. Ísland er í hópi landa með bestu horfurnar. Þetta eru niðurstöður nýrrar og víðtækrar rannsóknar sem birt var í gær í hinu virta læknatímariti The Lancet. Hún spannaði um 14 ára tímabil frá árinu 2000 og náði til landa þar sem tveir þriðju hlutar mannkyns búa og leiðir í ljós að mikill munur er á lifun milli landa, sérstaklega þegar kemur að tilteknum gerðum krabbameina í börnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.
Sem dæmi hafa horfur barna með heilaæxli batnað í mörgum löndum. Þannig er fimm ára lifun hjá börnum sem greindust allt fram til ársins 2014 tvöfalt hærri í Danmörku og Svíþjóð, í kringum 80 prósent, á meðan hún er innan við 40 prósent í Mexíkó og Brasilíu. Líkur eru á að þetta endurspegli aðgang sjúklinga að greiningu, gæði greiningarinnar og meðferðarúrræði.
Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands tók þátt í rannsókninni sem nefnist CONCORD-3. Hún byggðist á greiningum einstaklinga frá 322 krabbameinsskrám í 71 landi eða landssvæðum. Borin var saman fimm ára lifun frá greiningu hjá yfir 37,5 milljónum einstaklinga, bæði fullorðnum, 15 til 99 ára, og börnum, 0 til 14 ára. Um var að ræða 18 algengustu krabbameinin eða 75 prósent krabbameina sem greind voru á árunum 2000 til 2014.
Eftir að búið er að taka tillit til mismunandi aldurs og dauðsfalla af öðrum orsökum hafa krabbameinssjúklingar í eftirfarandi löndum bestu horfur í heiminum og hafa þær haldist nokkuð stöðugar síðustu 15 árin: Bandaríkin, Kanada, Ástralía, Nýja Sjáland, Finnland, Noregur, Ísland og Svíþjóð.
Batahorfur fara batnandi í Danmörku
Á Íslandi var fimm ára lifun 89 prósent hjá konum sem greindust með brjóstakrabbamein síðasta fimm ára tímabil rannsóknarinnar, eða árin 2010 til 2014, samanborið við 66 prósent hjá konum á Indlandi. Í Evrópu náði prósentan upp í 85 prósent eða meira í 16 löndum en komst aðeins upp í 71 prósent í Rússlandi, sem er lægsta prósentan í álfunni.
Horfur krabbameinssjúklinga hafa batnað verulega í Danmörku og eru þær nú svipaðar og á hinum Norðurlöndunum en voru áður talsvert verri. Þessar hröðu framfarir síðustu 15 árin má helst rekja til þess að Danir hafa sett fram vandaðar krabbameinsáætlanir og farið eftir þeim.
Krabbameinsskrár mikilvægar
Forstöðumaður rannsóknarinnar, Dr. Claudia Allemani, segir það afar mikilvægt að yfirvöld setji fram og fari eftir stefnumótandi áætlunum til að halda krabbameinum í skefjum og viðhalda þeim árangri sem náðst hafi í lifun. Efnahags- og framfararstofnunin OECD notar nú niðurstöður CONCORD rannsóknanna til að bera saman frammistöðu 48 heilbrigðiskerfa víða um heim, segir í tilkynningunni.
Áætlanir um lifun í sumum heimshlutum takmarkast þó bæði af ófullkomnum krabbameinsskrám og ýmsum stjórnsýslulegum eða lagalegum hindrunum. Sem dæmi eru 40 prósent skráðra tilfella í Afríku með ófullnægjandi eftirfylgni í skráningum, svo ekki var hægt að meta þróun lifunar.
„Ríkisstjórnir verða að skilja hversu mikilvægar krabbameinsskrár eru sem tæki til eflingar lýðheilsu. Þaðan koma stöðugt verðmætar upplýsingar er varða forvarnir gegn krabbameinum og skilvirkni heilbrigðiskerfisins, með hlutfallslega afar litlum tilkostnaði,“ segir Claudia.
Mikill munur á horfum barna með krabbamein
Rannsóknin varpar ljósi á mikinn mun á horfum barna með krabbamein, eftir búsetu. Í Brasilíu og Mexíkó var fimm ára lifun undir 40 prósent árin 2010 til 2014, miðað við um 80 prósent í Svíþjóð, Danmörku og Slóvakíu. Þrátt fyrir að horfur hafi batnað í flestum löndum frá árinu 1995 er mikill munur á fimm ára lifun barna með algengasta krabbameinið, bráða- eitilfrumuhvítblæði. Það sýnir best þá annmarka sem eru í sumum löndum á greiningu og meðferð sjúkdómsins, en hann er almennt talinn læknanlegur. Í nokkrum löndum eins og Kanada, Bandaríkjunum og 9 Evrópulöndum, er lifun 90 prósent, meðan hún er undir 60 prósent í Kína, Mexíkó og Ekvador.
Í lokin leggja höfundar rannsóknarinnar áherslu á mikilvægi þess að krabbameinsskrár um allan heim fái fullnægjandi fjármagn og aðstöðu til að skrá alla krabbameinssjúklinga, svo hægt sé að fylgjast með árangri greiningar og meðferðar í öllum löndum.