Ekki liggur fyrir hvort dómi héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem hann hafnaði því að staðfesta lögbann sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti á fréttaflutning Stundarinnar upp úr gögnum innan úr þrotabús Glitnis, verði áfrýjað eða ekki. Þetta segir Ólafur Eiríksson, lögmaður Glitnis, í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Ólafur segir að stjórn Glitnis muni kynna sér dóm héraðsdóms og taka ákvörðun um næstu skref eftir að hafa greint hann. Lögbannið sem sett var á Stundina og Reykjavík Media verður í gildi á meðan að frestur til áfrýjunar stendur yfir. Ákveði Glitnir að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms mun lögbannið gilda þar til að niðurstaða æðri dómstóls, líklega Hæstaréttar, liggur fyrir.
Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst þann 16. október síðastliðinn á lögbannskröfu þrotabúsins, Glitnis HoldCo gegn fréttaflutningi Stundarinnar og Reykjavik Media, sem er í eigu Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, með þeim afleiðingum að bann var sett á fréttaflutninginn upp úr gögnunum, en meðal þess sem finna má í gögnunum eru upplýsingar um einkamálefni verulegar fjölda fyrrverandi viðskiptavina Glitnis. Á meðal þess sem fjallað hefur verið um ítarlega eru fjármál Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Glitnir HoldCo taldi að upplýsingarnar væru bundnar bankaleynd.