Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, fór fram á það í dag að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, beiti sér fyrir því að samningar kröfuhafa föllnu bankanna við íslenska ríkið um greiðslu stöðugleikaframlaga verði gerðir opinberir. Sigmundur Davíð var forsætisráðherra þegar samningarnir voru gerðir.
Ástæða þess að Sigmundur Davíð fór fram á þetta voru svör Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma um hvort ríkið ætlaði að afsalaði sér forkaupsrétti vegna Arion banka og hvort að ríkið ætlaði sér að selja sinn 13 prósent hlut í bankanum.
Katrín svaraði því til að ákvörðun um hinn meinta forkaupsrétt og virkni hans hefði verið tekið þegar samningarnir hefðu verið gerðir og Sigmundur Davíð hefði verið forsætisráðherra. Engin ákvörðun hefði verið tekin um að selja hlut ríkisins í Arion banka en að í stjórnarsáttmálanum kæmi skýrt fram að ríkið stefndi að því að minnka hlut sinn í bankakerfinu, sem væri sem stendur sá mesti sem ríki ætti í slíku í Evrópu.
Steingrímur sagði sjálfur að ekki væri tilefni til þess að hann beitti sér sérstaklega til að samningarnir yrðu gerðir opinberir en benti á að hægt væri að óska slíkra upplýsinga á vettvangi þingsins með öðrum hætti en að beina því til hans.
Forkaupsréttarákvæði í samningunum
Tilkynnt var um aðgerðaráætlun stjórnvalda við losun hafta í byrjun júní 2015. Kynning á aðgerðunum for fram í Hörpu og var sýnd i beinni útsendingu. Skömmu áður höfðu stærstu kröfuhafar föllnu bankanna lagt fram tilboð um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda til að sleppa við stöðugleikaskatt.
Þegar samið var um stöðuleikaframlög setti íslenska ríkið inn ákvæði þess efnis að það gæti gengið inn í viðskipti með hluti í Arion banka ef gengið yrði lægra en 0,8 af bókfærðu eigin fé bankans. Í því samkomulagi var líka samið um að Kaupþing þurfi að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árslok 2018. Ef það myndi ekki takast myndi ríkissjóður leysa bankann til sín.
Vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Och-Ziff Capital Management, Attestor Capital og fjárfestingabankinn Goldman Sachs keyptu samtals hlut í Arion banka af Kaupþingi á tæplega 50 milljarða króna í fyrra. Verðið sem greitt var fyrir var yfir 0,8 krónur á hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka. Ríkið gat því ekki nýtt sér forkaupsréttinn þar sem hann virkjaðist ekki. Auk þess áttu sjóðirnir og Goldman Sachs samtals kauprétt af um 22 prósenta hlut til viðbótar sem þeir ákváðu í ágúst að nýta sér ekki.
Vilja gefa þjóðinni þriðjung í bankanum
Í kosningastefnu Miðflokksins fyrir síðustu þingkosningar sagði að hann ætli sér að nýta sér forkaupsrétt ríkisins að Arion banka. Hvernig flokkurinn ætlar sér að gera það var þó ekki útfært. Samkvæmt þeim skilyrðum sem sett voru um virkjun forkaupsréttar ríkisins þegar samið var um stöðugleikaframlögin þá telur ríkið ekki að það geti gengið inn í frekari sölu á hlut í Arion banka nema að slík sala fari fram á genginu 0,8 eða lægra miðað við eigið fé. Það er að minnsta kosti mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem sett var fram í minnisblaði til efnahags- og viðskiptanefndar sem lagt var fram á fundi nefndarinnar í júní 2017.
Kosningastefna Miðflokksins miðar að því að ríkið eignist Arion banka að fullu, að þriðjungur verði seldur í opnu útboði, að ríkið haldi eftir um þriðjungi og að þriðjungur verði gefin landsmönnum.