Einar Hannesson nýráðinn aðstoðarmaður Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra mun ekki aðeins þurfa að takast á við nýtt krefjandi starf heldur berst hann einnig við ólæknandi krabbamein.
Árið 2013 var hann greindur með ristilkrabbamein, fór í uppskurð snemma árs 2014 en þá um sumarið kom í ljós að krabbameinið hafði dreift sér bæði lungu og lifur.
Í samtali við Kjarnann segir Einar að um sé að ræða fjórða stigs krabbamein sem hann sé ennþá með.
„Það var búið að dreifa sér í lungu og lifur og 95 prósent þeirra sem greinast með þetta krabbamein deyja innan fimm ára. Svo virðist vera sem það sé eitthvað seigara í mér en á horfðist. En svona mein eru svo einstaklingsbundin að ég treysti mér ekkert til að segja mikið meira.“
Einar segist blessunarlega hafa haldið óskertri starfsorku frá því hann greindist, fylgst sé náið með framgangi sjúkdómsins á Landspítalanum og vel hafi gengið að halda honum niðri fram að þessu.
„Ég er svo heppinn að ég hef verið einkennalaus og náð að sinna hinum ýmsu störfum,“ segir Einar sem hefur meðal annars verið ráðgjafi hjá WOW air, sinnt fasteignasölu og lögmannsstörfum.
Í viðtali við Stundina árið 2015 sagðist Einar vinna allt of mikið miðað við að líkur séu á að hann eigi ekkert voðalega langt eftir ólifað. Aðspurður um hvort álag við störf aðstoðarmannsins komi ekki til með að hafa áhrif á heilsuna svarar hann léttur í bragði: „ef blaðamenn verða góðir við mig þá lifi ég sjálfsagt lengur.“
Hann segir verkefni dómsmálaráðuneytisins bæði áhugaverð og mikilvæg. „Þegar ráðherra hringir í mann og óskar eftir að maður liðsinni ríkisstjórninni þá verður maður eiginlega að leggja sitt af mörkum.
Einar er bjartsýnn og segir framtíðina bara koma í ljós. „Það hefur ekkert dregið af mér og ég hef svo sem heldur ekkert verið neitt veikur. En ég fer heldur ekkert auðveldlega á taugum og það sjálfsagt hjálpar eitthvað til.“