Mikil lækkun á verði hlutabréfa í Bandaríkjunum á síðustu tveimur viðskiptadögum, hefur komið mörgum á óvart. Í Wall Street Journal segir að það séu einkum væntingar um hækkun vaxta og verðbólgu sem séu helsta skýringin á því þessari lækkun.
Í gær lækkaði S&P 500 vísitalan um 4,1 prósent, en dagurinn í gær var versti dagurinn á markaði í Bandaríkjunum - þegar allir eignaflokkar eru teknir saman - frá því árið 2011.
Markaðir lækkuðu einnig mikið í Evrópu og Asíu, en Nikkei vísitalan japanska lækkaði um 4,7 prósent.
Ekki er langt síðan einn yfirmanna Goldman Sachs bankans, Peter Oppenheimer, lét hafa eftir sér í viðtali við CNBC að margt benti til þess að ákveðin „leiðrétting“ yrði á hlutabréfaverði á mörkuðum á næstunni.
Sagði hann útreikninga og haglíkön Goldman Sachs sýna að markaðir væru orðnir of bólgnir og að þegar slík staða hefði komið upp í gegnum árin, þá hefði verð lækkað hratt um allt að 13 prósent, yfir fjögurra mánaða tímabil.
Á undanförnum tveimur dögum hefur lækkunin hins vegar verið töluvert skörp, eða um rúmlega 7 prósent.
Búist er við því að stýrivextir í Bandaríkjunum fari hækkandi á næstunni, en þeir eru nú 1,5 prósent og voru hækkaðir í desember síðastliðnum um 0,25 prósentustig.