Kaup kanadíska fyrirtækisins Innergex Renewable Energy á Alterra Power, stærsta eiganda HS Orku, gengu formlega í gegn í gær. Kaupverðið er 1,1 milljarður Kanadalir, eða um 89 milljarðar króna.
Kjarninn greindi frá því að samþykkt hefði verið að selja Alterra Power til Innergex í lok október síðastliðins. Nú er hins vegar búið að ganga formlega frá kaupunum og 53,9 prósent hlutur Alterra Power í HS Orku, sem fyrirtækið átti í gegnum dótturfélag sitt Magma Energy Sweden, er nú í eigu Innergex, sem er skráð á markað í Kanada. Aðrir eigendur HS Orku eru félagið Jarðvarmi, sem er í eigu íslenskra lífeyrissjóða.
Samhliða því að gengið var formlega frá kaupunum hafa nýir eigendur greitt upp svokallað „Magma-skuldabréf“ sem gefið var út í tengslum við kaup Magma Energy Sweden á hlut Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í HS Orku árið 2009. Lokagreiðslan nam um 39 milljónum Bandaríkjadala, sem svara til tæplega fjögurra milljarða króna og var á gjalddaga í apríl 2018.
Á 30 prósent hlut í Bláa lóninu
HS Orka er eina íslenska orkufyrirtækið sem er í eigu einkaaðila. HS Orka á og rekur orkuver í Svartsengi og á Reykjanesi auk þess sem virkjanakostir sem fyrirtækið á eru í nýtingarflokki rammaáætlunar.
HS Orka skilaði 2,8 milljarða króna hagnaði árið 2016 og eignir félagsins voru metnar á um 45 milljarða króna. Á meðal þeirra eigna er 30 prósent hlutur í Bláa lóninu sem metinn var á 1,8 milljarð króna í síðasta birta ársreikningi HS Orku. Í fyrra bárust nokkur tilboð í þann hlut sem voru yfir ellefu milljörðum króna. Alterra vildi taka þeim tilboðum en Jarðvarmi hafnaði því og forsvarsmaður fyrirtækisins sagði að tilboðin endurspegluðu ekki verðmæti Bláa Lónsins. Heildarvirði Bláa lónsins samkvæmt tilboðunum sem fyrir lágu var 37 milljarðar króna.
Forsvarsmenn Alterra voru ekki ánægðir með að tilboðunum hafi ekki verið tekið. En minnihlutaeigendurnir í HS Orku, Jarðvarmi sem er í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, gátu hafnað þeim vegna hluthafasamkomulags um minnihlutavernd sem gert var þegar Jarðvarmi keypti upphaflega hlut í HS Orku sumarið 2011.
Umdeild kaup á sínum tíma
Alterra, sem þá hét Magma Energy, keypti sig inn í HS Orku árið 2009. Viðskiptin voru mjög umdeild og þáverandi stjórnvöldum hugnaðist þau ekki. Þrátt fyrir ítrekaðar inngripstilraunir hélt Magma/Alterra áfram að eignast hluti í HS Orku og átti vorið 2011 nánast allt hlutaféð í fyrirtækinu.
Jarðvarmi keypti svo hlut í HS Orku í maí 2011 og nýtti kauprétt á viðbótarhlut ári síðar. Samanlagt á það félag núna 33,4 prósent hlut. Síðsumars keypti svo fjárfestingarsjóðurinn Örk 12,7 prósent hlut, en Alterra átti rest þar til í gær. Innlendir aðilar eiga því 46,1 prósent hlut í HS Orku á móti Innergex, sem á 53,9 prósent.