Á annan tug lífeyrissjóða samþykktu í lok síðustu viku að fara í óskuldbindandi viðræður um kaup á samanlagt tæplega tíu prósenta hlut í Arion banka af Kaupþingi, samkvæmt heimildum Markaðarins, en greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag.
Stefnt er að því að ganga frá samkomulagi í byrjun næstu viku, fyrir birtingu ársuppgjörs bankans 14. febrúar, en kaupverðið yrði þá að óbreyttu samtals í kringum sautján milljarðar króna.
Í Morgunbaðinu í dag kemur fram að áhugi lífeyrissjóðanna sé ekki svo mikill, en að stjórn Arion banka hyggs leggja það til við hluthafafund í næstu viku að allt að 25 milljarðar króna verði greiddir til hlutahafa í formi arðs. Tillagan hangir saman við aðra tillögu þess efnis að bankanum verði heimilt að kaupa allt að 10% hlut í sjálfum sér á gengi sem gæti verið allt að 94,177 krónum á hvern hlut. Það jafngildir 0,85 af bókfærðu eigin fé bankans.
Í Markaðnum segir að einnig séu í gangi viðræður við íslensk tryggingafélög og verðbréfasjóði um að fjárfesta í Arion banka, mögulega á bilinu þrjú til fimm prósenta hlut, samhliða því að gengið yrði frá kaupsamningi við lífeyrissjóðina.
Það er Kvika banki sem er ráðgjafi Kaupþings í söluferlinu en sjóðunum og tryggingafélögunum var gert tilboð þar sem þeim býðst að kaupa í bankanum á föstu verði sem er rétt yfir genginu 0,8 miðað við eigið fé hans í lok þriðja ársfjórðungs 2017. „Gangi áform lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta eftir um að kaupa mögulega allt að fimmtán prósenta hlut í Arion banka, áður en ráðist verður í alþjóðlegt útboð og skráningu bankans síðar á árinu, hyggst Kaupþing nýta sér kauprétt að þrettán prósenta hlut ríkisins í bankanum. Kaupþing hefur að undanförnu haft það til skoðunar, eins og áður hefur verið greint frá í Markaðnum, að leysa til sín hlut ríkisins á grundvelli hluthafasamkomulags frá 2009 og selja hann áfram – á sama verði og hann yrði keyptur á af ríkinu – til meðal annars lífeyrissjóða,“ segir í umfjöllun Markaðarins, í Fréttablaðinu.
Íslenska ríkið á 13 prósent hlut í Arion banka, en miðað við bókfært eigið fé bankans er hann virði um 29 milljarða króna. Sé miðað við 0,8 sinnum eigið fé, er verðmiðinn 23 milljarðar króna.