Starfshópur sem skipaður var í júlí í fyrra, til að fara yfir breytingar á bankakerfinu og koma fram með tillögur að úrbótum, hefur skilað skýrslu sinni til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.
Í hópnum áttu sæti Guðjón Rúnarsson, formaður, Sigurður B. Stefánsson, Sigrún Ragna Ólafsdóttir, Frosti Sigurjónsson, og Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir.
Skýrsla hópsins er yfirgripsmikil, og er fjallað um helstu álitamál er varðar endurskipulagningu á bankakerfinu. Farið er yfir þær miklu breytingar sem þegar hafa verið gerðar á regluverki fjármálamarkaðarins eftir árið 2008.
Í niðurstöðum nefndarinnar kemur fram að starfsumgjörð fjármálamarkaðar hafi verið gjörbylt frá fjármálakreppunni 2008 og breytingar í regluverki og eftirliti tekið á helstu áhættum sem gerðu bankakerfið fallvalt í aðdraganda hennar. „Bankarnir standi nú styrkum fótum og ekkert bendi til þess að það breytist á næstu misserum. Í ljósi sögunnar sé samt skynsamlegt að dregin verði varnarlína um hvað fjárfestingarbankastarfsemi á grunni beinnar og óbeinnar stöðutöku geti vaxið mikið hjá stærstu bönkunum, þeim sem teljast kerfislega mikilvægir hér á landi,“ segir meðal annars í útdrætti úr helstu niðurstöðum hópsins.
Hópurinn tók mörg viðtöl við vinnu sína, við innlenda og erlenda bankamenn, til að fá fram sem flest sjónarmið.
Í lok skýrslunnar eru dregin saman atriði sem starfshópurinn, eða nefndin eins og rætt er um hann í skýrslunni, telur að þurfi að huga betur að og leggur fram tillögur að úrbótum. „Nefndin leggur til að ef einhver af kerfislega mikilvægu bönkunum hefur í hyggju að auka þá fjárfestingarbankastarfsemi sem felst í beinni og óbeinni stöðutöku umfram sem nemur 10-15% eiginfjárbindingu af eiginfjárgrunni, sé þeim banka frjálst að gera það enda verði stofnað sérstakt félag um fjárfestingarbankastarfsemina. Félögin geta verið hluti af sömu samstæðu, en þau verði með óháða stjórn, stjórnendur og fjárhag. Slík breyting á lögum um fjármálafyrirtæki verði í anda þeirra lagabreytinga sem gerðar hafa verið í Bretlandi á grunni Vickers-skýrslunnar frá 2011. Til vara leggur nefndin til að löggjafinn veiti Fjármálaeftirlitinu skýra heimild og skyldu til að grípa til aðgerða ef eftirlitið telur að fjárfestingarbankastarfsemi tiltekins banka sé orðin það viðamikil að hún skapi áhættu fyrir viðskiptabankann. Í þeim efnum skal haft í huga að eftirlitið hefur í dag heimildir til að grípa inn í rekstur banka, en þær eru mjög almennar og því hætta á að hart yrði deilt um lögmæti slíkrar ákvörðunar og inngrip gætu dregist um of. Þá kallar nefndin eftir því að eftirlitsaðilar skilgreini þá hluta af starfsemi viðskiptabankanna sem verður ávallt að vera uppi til að þjóna almenningi og rekstri fyrirtækja í landinu. Mikilvægt er að enginn vafi leiki á því hvaða starfsþættir það eru,“ segir meðal annars í skýrslunni.