Hlutabréfaverð hrundi á alþjóðamörkuðum í dag, víðast hvar um 3 til 5 prósent. Eins og oft, þegar svona mikil dagsveifla verður, er eru margar skýringar nefndar fyrir fallinu, sem enn er viðvarandi þegar þetta er skrifað (21:32).
Á vef Wall Street Journal og BBC kemur fram að fjárfestar hafi brugðist hratt við yfirlýsingum Englandsbanka (Bank Of England) þess efnis að vextir yrðu hugsanlega hækkaðir hraðar en áður hafði verið búist við, og að verðbólga kunni að vaxa á næstunni.
Verð á hráolíu féll einnig töluvert, en það hefur lækkað um 2,3 prósent í dag á Bandaríkjamarkaði og er nú tunnan nú komin í 60 Bandaríkjadali.

Í umfjöllun Wall Street Journal segir að ráðgjafar innan banka í Bandaríkjunum hafi gefið fjárfestum út þau skilaboð að halda ró og taka ekki ákvarðanir á grundvelli skarpra dagsveiflna á markaði.
Þessar sveiflur nú ættu ekki að koma mörgum á óvart, í ljósi mikils uppgangs á hlutabréfamörkuðum á undanförnum árum. Ekki aðeins á undanförnu ári, heldur í reynd allt frá því að viðspyrnan hófst á fjármálamörkuðum eftir hrunið 2007 til 2009.
Aðgerðir seðlabanka, ekki síst í Bandaríkjunum, Bretlandi og Evrópu, hafa haft víðtæk áhrif á gang efnahagsmála og þróun á verðbréfamörkuðum.
Á sumarmánuðum í fyrra sagði Jamie Dimon, forstjóri JP Morgan bankans, meðal annars að „enginn hefði hugmynd um“ hvað myndi gerast, þegar íhlutun seðlabanka á markaði myndi minnka og hefðbundið ástand myndast á markaði á nýjan leik. Um það væri algjör óvissa.