„Þótt miklar sviptingar hafi orðið á íslenskum fjármálamarkaði undanfarna áratugi, eins og öllum er kunnugt, þá hafa þær að því er virðist litlu breytt um langtímaleitni raunvaxta á Íslandi. Þeir hafa lækkað að jafnaði um ríflega fimmtung úr prósenti á ári allt frá því þeir voru í hæstu hæðum um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Árin 1986-88 voru raunvextir öruggustu skuldabréfa sem í boði voru, verðtryggðra spariskírteina ríkissjóðs, rétt um 9%. Sambærilegir vextir eru nú komnir um eða undir 2%. Þessi þróun hefur vakið furðulitla umræðu, þrátt fyrir mikinn áhuga margra landsmanna á vöxtum og verðtryggingu.“
Þetta segir Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi viðskiptaráðherra, í ítarlegri grein í nýjustu útgáfu Vísbendingar.
Í greininni gerir hann samhengi vaxtastigs og ávöxtun lífeyrissjóða að umtalsefni, og telur miklar áskoranir vera framundan. „Við því verður að bregðast með annað hvort hækkun iðgjalda eða lækkun réttinda (eða seinka lífeyristökualdri). Það getur þannig verið lítil ástæða fyrir launþega til að fagna lægri greiðslubyrði af húsnæðislánum ef á móti kemur þörf fyrir hærri iðgjöld í lífeyrissjóði eða sultur og seyra á efri árum.“
Vísbending kom til áskrifenda í dag, eins og alla föstudaga. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.