Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin séu tilbúin til viðræðna við yfirvöld í Norður-Kóreu um hvernig megi draga úr spennu á Kóreuskaga og stuðla að friði.
Eftir að Norður-Kórea samþykkti þátttöku á Ólympíuleikunum í vetraríþróttum, sem nú eru hafnir í Suður-Kóreu, þá hafa komist á betri samskipti milli Norður- og Suður-Kóreu.
Samkvæmt umfjöllun Washington Post hefur forseti Suður-Kóreu, Moon Jae-in, verið sá sem liðkað hefur fyrir samskiptum milli þeirra sem deila harðast vegna tilrauna Norður-Kóreu með langdrægar flaugar.
Mike Pence er sagður hafa samþykkt viðræður við yfirvöld í Norður-Kóreu, en þó aðeins á forsendum Bandaríkjanna. Strangar viðskiptaþvinganir sem samþykktar voru af öllum 15 þjóðunum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru enn í gildi, en þær miða meðal annars að því að hindra innflutning á olíu til landsins og beita Norður-Kóreu þrýstingi til að láta af tilraunum sínum með eldflaugar sem geta borið kjarnorkusprengjur.
I'm grateful for the strong relationship between the U.S & South Korea. We're going to stand solidly with South Korea and with all of our allies to continue to bring the maximum pressure to bear on North Korea. #VPinASIA pic.twitter.com/EfqB6yWLi0
— Vice President Mike Pence (@VP) February 10, 2018
Pence hefur sagt, að Bandaríkin standi með Suður-Kóreu og að ekki verið látið undan neinu því sem Norður-Kórea vilji ná fram. Þátttaka Bandaríkjanna í viðræðum snúist fyrst og fremst um að tryggja hagsmuni Bandaríkjanna og þeirra þjóða sem Norður-Kórea ógnar mest, nágrönnunum Suður-Kóreu og Japan.