Samþykkt var á hluthafafundi í Arion banka í morgun að veita tímabundna heimild til að kaupa til baka hlutabréf útgefin af bankanum af núverandi hluthöfum hans. Hún heimilar að stjórn bankans geti keypt allt að 200 milljónir hluta í bankanum á allt að 18,8 milljarða króna. Um er að ræða allt að tíu prósent hlut í Arion banka.
Þá var einnig samþykkt að greiða út 25 milljarða króna í arðgreiðslu til hluthafa, en endurkaup á hlutabréfum dragast frá þeirri greiðslu. Arðgreiðslan er skilyrt því að Kaupþing ehf., stærsti eigandi Arion banka, muni ná að selja að minnsta kosti tvö prósent af eign sinni í bankanum fyrir 15. apríl næstkomandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar. Þar segir enn fremur: „Arðgreiðsla og kaup á eigin bréfum sem samþykkt var á hluthafafundi bankans er að fullu í samræmi við langtímamarkmiði Arion banka um að minnka umfram eigið fé bankans. Að framkvæmd lokinni lækkar eiginfjárhlutfall bankans um ríflega 3 prósent en er engu að síður vel umfram kröfur FME og það sem bankinn telur hæfilegt.“
Lífeyrissjóðir ætla ekki að kaupa
Í dag rann út frestur íslenskra lífeyrissjóða til að svara tilboði Kaupþings um að kaupa hlut í Arion banka áður en að bankinn verður skráður á markað. Sjóðirnir höfnuðu því að kaupa hlut sem stendur. Viðmælendur Kjarnans segja hins vegar ekki útilokað að íslensk tryggingafélög og önnur fjármálafyrirtæki kaupi hluti í Arion banka fyrir útboð. Kaupgeta þeirra er næg til þess að hægt verði að losa að minnsta kosti tvö prósent í bankanum og þar með uppfylla það skilyrði sem er sett fyrir arðgreiðslunni.
Kaupþing er stærsti eigandi Arion banka með um 57 prósent hlut. Vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Och-Ziff CapitalManagement, Attestor Capital og fjárfestingabankinn Goldman Sachs eiga samanlagt 29,59 prósent hlut í bankanum og íslenska ríkið á 13 prósent hlut.
Verði greiddir út 25 milljarðar króna, bæði vegna endurkaupa og arðgreiðslu, má ætla að íslenska ríkið fá um 3,3 milljarða króna í sinn hlut.
Geta fengið háar bónusgreiðslur takist að selja allar eignir
Stefnt hefur verið að sölu á Arion banka í töluvert langan tíma. Kaupþing ehf., eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir þrotabús hins fallna banka, hélt á 87 prósent hlut í Arion banka eftir að gengið hafði verið frá uppgjöri milli þeirra og ríkisins í byrjun árs 2016. Og ríkið hélt áfram á 13 prósent hlut.
Í samkomulaginu við kröfuhafanna stóð líka að íslenska ríkið ætti forkaupsrétt á hlutum í Arion banka ef bankinn yrði seldur fyrir virði sem væri 80 prósent eða minna af bókfærðu eigin fé. Sömuleiðis getur ríkið geti leyst Arion banka til sín ef ekki tækist að selja hann fyrir árslok 2018.
Í ágúst 2016 var greint frá því að um 20 starfsmenn Kaupþings gætu fengið allt að 1,5 milljarða króna í bónusgreiðslur ef markmið um hámörkun á virði óseldra eigna myndi nást. Þessar bónusgreiðslur ættu að greiðast út eigi síðar en í lok apríl 2018. Langstærsta óselda eignin á þeim tíma var 87 prósent hlutur Kaupþings í Arion banka. Og sú eign er enn að hluta óseld.
Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi þá verða bónusgreiðslurnar að óbreyttu greiddar út fyrir lok apríl. Þau viðskipti sem áttu sér stað með hluti í Arion banka í fyrra hafa áhrif á umfang þeirra en fyrirhugað hlutafjárútboð á eftirstandandi 57,4 prósent hlut Kaupþings mun ekki gera það.