Fyrirtæki sem eru með á bilinu einn til níu starfsmenn greiddu samtals 143 milljarða króna í laun á árinu 2016. Alls borguðu þau laun til 37 þúsund manns. Þetta kemur fram í sérvinnslu Hagstofu Íslands sem var unnin fyrir Samtök atvinnulífsins og kynnt á Smáþingi Litla Íslands.
Helstu niðurstöður sérvinnslunnar eru þær að alls 19.500 launagreiðendur hafi verið á Íslandi árið 2016. Þar af hafi verið um tíu þúsund einkahlutafélög sem greiði eingöngu eigendum sínum laun. Alls séu 99,6 prósent fyrirtækja á Íslandi flokkuð sem lítil eða meðalstór, sem þýði að þau séu með undir 250 starfsmenn. Hjá þeim unnu 71 prósent starfsmanna í atvinnulífinu á árinu 2016. Þau greiddu 66 prósent allra launa.
Á árunum 2010 til 2016 fjölgaði litlum og meðalstórum fyrirtækjum um 3.250, eða 20 prósent, og starfsmönnum þeirra fjölgaði um 20.700. Heildarlaunagreiðslur í atvinnulífinu í heild jukust um 73 prósent milli ofangreindra ára og voru rúmlega 760 milljarðar króna árið 2016. Þar af námu heildarlaunagreiðslur lítilla og meðalstórra fyrirtækja rúmlega 530 milljörðum króna.
Hagtölur eftir stærð fyrirtækja ekki almennt birtar
Í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins (SA) segir að hagtölur um fyrirtæki eftir stærð séu almennt ekki birtar hérlendis. Það sé hins vegar gert í nágrannalöndum okkar auk þess sem slíkar séu birtar árlega á vef Evrópusambandsins. Þar sé fjallað um fjölda fyrirtækja, starfsmannafjölda og virðisauka eftir stærð fyrirtækja í mismunandi atvinnugreinum. „Upplýsingarnar gefa færi á að leggja mat á mikilvægi smárra, meðalstórra og stórra fyrirtækja í sköpun atvinnu og verðmæta. Jafnframt er unnt að leggja mat á þróunina, t.d. hvaða stærðarflokkar fyrirtækja eru í örustum vexti og leggja mest til fjölgunar starfa og aukinnar verðmætasköpunar.“
Árið 2016 var 19.531 launagreiðandi í atvinnulífinu Örfyrirtæki voru langflest, 17.410, lítil fyrirtæki voru 1.789, 332 voru meðalstór, og 72 voru stór. Í niðurstöðum SA segir að 99,6 prósent launagreiðenda í atvinnulífinu flokkast þannig sem lítil og meðalstór fyrirtæki. Hjá örfyrirtækjunum starfaði 26 prósent starfsmanna í atvinnulífinu, 24 prósent hjá litlum fyrirtækjum, 21 prósent hjá meðalstórum fyrirtækjum og 29 prósent hjá stórum fyrirtækjum.
Örfyrirtæki greiddu 19 prósent heildarlaunagreiðslna, litlu fyrirtækin 23 prósent, meðalstóru 24 prósent og stóru fyrirtæki 34 prósent. „Hlutdeild örfyrirtækja og lítilla fyrirtækja er þannig lægra í launagreiðslum en í starfsmannafjölda.“