Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ætlar að hætta að nota einkabíl sinn til aksturs vegna starfa sinna og nýta sér bílaleigubíl þess í stað. Hann greinir frá þessu í samtali við Vísi.
Þar segir Ásmundur að þetta hafi staðið til lengi eftir að nýjar reglur hafi verið settar af forsætisnefnd um akstursmál þingmanna fyrir síðustu kosningar. Ásmundur segir við Vísi að ekkert „samráð var haft við okkur sem erum í þessu heimakeyrsluverkefni“ þegar þær reglur hafi verið settar. Ásmundur segir enn fremur að hann hafi boðið þinginu að leigja af sér bifreið sína á sömu kjörum og bílaleigur bjóða þinginu. Það hafi ekki verið þegið.
Ásmundur sá þingmaður sem fékk flestar krónur endurgreiddar vegna aksturskostnaðar í fyrra, alls 4,6 milljónir króna. Upphæðin sem hann fékk þýðir að hann fékk um 385 þúsund krónur á mánuði í endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna keyrslu sinnar. Alls keyrði Ásmundur 47.644 kílómetra í fyrra, og fékk endurgreitt frá ríkinu vegna kostnaðar fyrir þann akstur.
Í morgun var greint frá því í Morgunútvarpi Rásar 2 að samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðareigenda (FÍB) kostar um tvær milljónir króna að reka Kia Sportage-jeppa á ári. Ásmundur á slíkar bíl.
Í útreikningunum er gert ráð fyrir verðrýrnun á bifreiðinni milli ára vegna mikils aksturs (Ásmundur keyrði tæplega 48 þúsund kílómetra í fyrra og verðrýrnunin er reiknuð 18 prósent, eða 139 þúsund krónur), eyðslu sem samsvarar sjö lítrum af dísilolíu á hverja 100 kílómetra (kostnaður upp á 654 þúsund krónur), 270 þúsund króna viðhaldskostnaði og 90 þúsund krónum í hjólbarða. Þá er reiknað með að tryggingar kosti 160 þúsund krónur og að skattar og skoðun kosti 26 þúsund krónur. Alls er bætt við 49 þúsund krónum í kostnað vegna bílastæða, þrifa og fleiri þátta. Samanlagt gera þetta um tvær milljónir króna, eða um 2,6 milljónum krónum lægri upphæð en Ásmundur fékk greidda frá Alþingi.
Endurgreiðslur til þingmanna vegna aksturs hafa dregist mikið saman undanfarin ár eftir að þeim tilmælum var beint til landsbyggðarþingmanna að nota frekar bílaleigubíla og flugleiðir til að komast á milli staða. Skrifstofa Alþingis hefur gert samninga við bílaleigufyrirtæki sem eru að finna í rammasamningi Ríkiskaupa, um afslætti af gjaldskrá bílaleigubíla til að ná niður þessum kostnaði enn frekar.