Samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðareigenda (FÍB) kostar um tvær milljónir króna að reka Kia Sportage-jeppa á ári. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, á slíkan bíl og fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar frá Alþingi í fyrra vegna keyrslu hans.
Útreikingar FÍB voru gerðir fyrir Morgunútvarp Rásar 2. Í útreikningunum er gert ráð fyrir verðrýrnun á bifreiðinni milli ára vegna mikils aksturs (Ásmundur keyrði tæplega 48 þúsund kílómetra í fyrra og verðrýrnunin er reiknuð 18 prósent, eða 139 þúsund krónur), eyðslu sem samsvarar sjö lítrúm af dísilolíu á hverja 100 kílómetra (kostnaður upp á 654 þúsund krónur), 270 þúsund króna viðhaldskostnaði og 90 þúsund krónum í hjólbarða. Þá er reiknað með að tryggingar kosti 160 þúsund krónur og að skattar og skoðun kosti 26 þúsund krónur. Alls er bætt við 49 þúsund krónum í kostnað vegna bílastæða, þrifa og fleiri þátta. Samanlagt gera þetta um tvær milljónir króna, eða um 2,6 milljónum krónum lægri upphæð en Ásmundur fékk greidda frá Alþingi.
Fékk 33 prósent meira en næsti maður
Ásmundur sá þingmaður sem fékk flestar krónur endurgreiddar vegna aksturskostnaðar í fyrra. Upphæðin sem hann fékk þýðir að hann fékk um 385 þúsund krónur á mánuði í endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna keyrslu sinnar. Alls keyrði Ásmundur 47.644 kílómetra í fyrra, og fékk endurgreitt frá ríkinu vegna kostnaðar fyrir þann akstur.
Til samanburðar má nefna að Hringvegurinn, Þjóðvegur 1, er 1.322 kílómetrar. Ásmundur keyrði því tæplega 36 sinnum hringinn í kringum landið á síðasta ári.
Ásmundur hefur sagt að hann fari eitt hundrað prósent eftir öllum reglum og að hann hafi aldrei fengið athugasemd frá þinginu. Hann haldi nákvæma dagbók þar sem finna megi yfirlit yfir það sem hann hefur gert í hverri ferð fyrir sig og hvern hann hafi hitt. Tíðar kosningar á undanförnum árum hafi auk þess kallað á aukin ferðalög. „Reglurnar eru bara þannig að þau erindi sem ég á við kjósendur sem þingmaður það er greitt.“
Sá þingmaður sem keyrði næst mest keyrði 35.065 kílómetra og fékk tæplega 3,5 milljónir króna í endurgreiðslur frá ríkinu vegna þess. Keyrsla þingmannsins í öðru sæti var 33 prósent minni en keyrsla Ásmundar. Alls fengu þeir þingmenn sem kröfðust hæstu endurgreiðslunnar vegna aksturs 29,2 milljónir króna í endurgreiðslur í fyrra.