Ólöf Rún Ásgeirsdóttir, þolandi í kynferðisbrotamáli, segist hafa upplifað það sem sjálfstætt brot þegar Sif Konráðsdóttir þá réttargæslumaður hennar, nú aðstoðarmaður umhverfisráðherra, hafi ekki greitt henni miskabætur sem henni voru dæmdar vegna málsins. Ólöf þurfti að leita sér aðstoðar annars lögmanns til að innheimta bæturnar sem á endanum fengust greiddar.
Erfitt ferli
Í samtali við Kjarnann segir Ólöf Rún sögu sína. Hún ólst upp á Stykkishólmi þar sem hún var beitt kynferðisofbeldi af kennara sínum. „Hann var líka að þjálfa mig í körfubolta. Hann byrjaði að hafa samband við mig í gengum sms skilaboð, ætlaði að senda á vin sinn en sendi „óvart“ á mig. Upp úr því fórum við að vera í miklu sambandi sem þróaðist út í kynferðislegt samband,“ segir Ólöf.
Síðar stóð til að kennarinn yrði gerður að umsjónarkennara Ólafar. Átti meðal annars að fara með bekkinn í utanlandsferð en þá kom í ljós að þær voru fleiri stúlkurnar sem hann átti í samskiptum við með þeim hætti sem hann síðar var dæmdur fyrir.
„Við fórum og töluðum við skólastjórann og síðan við foreldra okkar. Þau lögðu fram kæru fyrir okkar hönd.“ Í kjölfarið tók við ferli sem Ólöf segir hafa verið afar erfitt. „Stykkishólmur er lítill bær, við fengum stundum ekki afgreiðslu, það var bloggað um okkur, þetta var á þeim tíma sem allir voru að blogga, alls konar nafnlaus komment og sms. Þetta var ógeð,“ segir Ólöf Rún. Þetta hafi allt saman skilað sér í félagslegri einangrun, kvíða og á endanum tilraun til sjálfsmorðs. Hún á enn í dag erfitt með félagslegar tengingar og segir hún þessa upplifun lita samskipti hennar við hitt kynið. Hún segist ennfremur þurfi mikla staðfestingar á félagslegu samþykki þeirra sem hún er í kringum.
Bæturnar staðfesting á tjóni
Maðurinn var í upphafi árs 2005 dæmdur fyrir brot sín og gert að greiða Ólöfu og annarri stúlku miskabætur. Dómurinn var að mestu staðfestur í Hæstarétti og bætur til þeirra hækkaðar.
„Ég man að ég var svo reið á sínum tíma og mig langaði ekki í neinar bætur. Þær myndu ekki breyta neinu. En svo var mér sagt að þær væru það eina sem ég gæti beðið um til að sýna fram á að ég hefði orðið fyrir einhverjum skaða. Þannig að við sóttum um bætur og fengum þær dæmdar.“
Ólöf og hin stúlkan voru börn að aldri þegar þær urðu fyrir brotunum og eins þegar dómur féll og þeim voru dæmdar bæturnar. Það voru því foreldrar þeirra sem sóttu málið fyrir þeirra hönd.
En bæturnar skiluðu sér ekki frá réttargæslumanninum. Foreldrar Ólafar leituðu á endanum til lögmanns á annarri lögmannsstofu til að freista þess að fá þær greiddar, sem síðar varð eftir dúk og disk.
Var kærð til Lögmannafélagsins
Og Ólöf var ekki sú eina sem lenti í því. Sif var árið 2008 kærð til Lögmannafélagsins fyrir annað mál, þar sem hún greiddi öðru barni sem hún sinnti réttargæslu fyrir ekki bætur sem því var dæmt í Hæstarétti. Vísir fjallaði ítarlega um málið árið 2008 þar sem fram kemur að þegar reynt var að sækja bæturnar hafi Sif verið flutt búferlum til Belgíu þar sem hún hafði tekið við starfi sérfræðings á ríkisaðstoðarsviði Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel. Björn Bergsson, þá lögfræðingur á Mandat lögmannsstofu, sagði róðarí hafa verið á rekstri Sifjar en hann sá um frágang á bókhaldi og rekstri hennar eftir að hún flutti út. Hann fékk Sif á endanum til að senda pening sem hann greiddi út til aðilanna sem um ræddi, þar á meðal Ólafar, og kæran hjá Lögmannafélaginu var í kjölfarið dregin til baka.
„Í minningunni minni var þetta bara þannig að það vildi enginn lögmannanna tengjast þessu, vildu bara klára þetta og ég veit ekkert hvaðan þessir peningar eru raunverulega komnir,“ segir Ólöf.
Sjálfstætt brot að greiða ekki út bæturnar
Ólöf segir að hún hafi upplifað það sem annað sjálfstætt brot þegar hún síðan fékk ekki þessar takmörkuðu bætur sem henni voru dæmdar greiddar.
„Mér fannst hún með þessu gera svo lítið úr brotinu, þetta litla sem við fengum að geta ekki borgað okkur þetta strax. Ef ég myndi stela úr fyrirtækinu sem ég er að vinna hjá, en seint og síðar meir borga það til baka, þá fengi ég ekkert að halda vinnunni.“
Í viðtali Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra við Vísi kemur fram að honum sé ekki kunnugt um hvaðan þeir fjármunir komu sem voru greiddir til skjólstæðinga Sifjar. Hann sagðist hafa þær heimildir að þetta hafi verið greitt af reikningum hérna heima sem hann standi í trú um að séu þessir svokölluðu fjárvörslureikningar, en ekki fengið það staðfest. Í umfjöllun Vísis frá árinu 2008, sem fjallaði eins og fyrr segir um annað mál en Ólafar, segir að hvorki Björn né aðrir sem rætt var við vegna málsins hafi getað staðfest að peningarnir sem Sif millifærði frá Belgíu hafi verið frá henni persónulega eða bæturnar sé komu inn á fjárvörslureikning lögmannstofu hennar. Ingimar Ingimarsson, framkvæmdastjóri Lögmannafélagsins, staðfesti á sínum tíma að Sif hefði skilað inn lögmannsréttindum sínum áður en hún flutti til Belgíu.
Óvíst hvaðan peningarnir koma
Ólöf segir það ekki réttlæta verknaðinn þó hún hafi á endanum fengið peningana greidda. Hún segir þetta skipta hana máli. „Ég veit ekkert hvaða peningar þetta voru. Ég vildi bara fá mína peninga. Þetta var táknrænt fyrir mig.“
Ólöfu segist hafa brugðið þegar hún sá að Sif væri orðin aðstoðarmaður ráðherra. „Það bara snappaði eitthvað inn í mér,“ segir Ólöf og segist upplifa þá stöðu sem vanvirðingu fyrir því sem hún hafi orðið fyrir.
Og hún setur spurningamerki við að Sif njóti fulls trausts. Í frétt Vísis frá 10. febrúar síðastliðnum segist umhverfisráðherra hafa vitað af málinu áður en Sif var ráðin til starfa. „Fullvissaði hún mig um það að þarna væri væri mál sem var gengið frá á sínum tíma,“ sagði Guðmundur við Vísi. Hann sagði það leiðinlegt ef þetta mögulega ýfði upp einhverjar tilfinningar hjá brotaþolanum en að Sif njóti trausts í starfi.
„Mér finnst þetta bara hrikalegt. Hún er að vinna fyrir mig. Hún er að vinna fyrir ríkisstjórnina mína. Þetta væri annað ef hún væri bara að vinna einhvers staðar sem lögfræðingur, ekki lögmaður eða í opinberu starfi. Fyrir mér gengur það bara ekki upp að hún sé að sinna einhverjum ábyrgðarstörfum fyrir fólk. Það er ekki oft sem ég stend upp fyrir sjálfri mér en nú vil ég gera það,“ segir Ólöf.