Meirihluti hluthafa Arion banka, meðal annars vogunarsjóðir og Kaupþing, sækist nú eftir því að Valitor verði aðgreint frá bankanum, áður en kemur að útboði og skráningu í vor, þannig að hlutabréf kortafyrirtækisins verði að stærstum hluta greidd út í formi arðs til hluthafa.
Frá þessu er greint í Markaðnum í dag, og kemur þar fram að Bankasýslan, sem heldur utan um 13 prósent ríkisins í Arion banka, hafi settsig uppá móti þessu. Kirstín Þ. Flygenring situr fyrir hönd Bankasýslunnar í stjórn Arion banka og greiddi atkvæði þessari tillögu. „Við slíka ráðstöfun myndu erlendir vogunarsjóðir og Goldman Sachs, sem eignuðust liðlega 30 prósenta hlut í Arion banka fyrir um ári, jafnframt eiga kauprétt að 21,4 prósenta hlut til viðbótar í Valitor af Kaupþingi, samkvæmt heimildum Markaðarins. Er kauprétturinn á um helmingi hærra verði en sem nemur bókfærðu virði Valitor í reikningum Arion banka. Ekki er samstaða um það á meðal eigenda bankans að hlutabréf Valitor verði greidd út í arð en sú ráðstöfun þarf samþykki stjórnar bankans,“ segir í umfjöllun Markaðarins.
Hefur Kirstín talað fyrir því að betra sé að selja hluti í Valitor í opnu útboðsferli, að því er segir í Markaðnum.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í gær, er færist það sífellt nær, að ríki selji 13 prósent hlut sinn í Arion banka fyrir um 23 milljarða króna. Er það meðal annars vegna þess að Kaupþing hyggst nýta sér kauprétt að hlutnum, á grundvelli hluthafasamkomulags frá árinu 2009.
Ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins hefur haft söluferlið á Arion banka til umræðu, samkvæmt heimildum Kjarnans, og fylgst náið með framvindu þess. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, eiga sæti í nefndinni, og eru samstíga um það nú, að ríkið eigi að selja hlut sinn í bankanum.
Í Markaðnum kemur fram að virði Valitor liggi ekki fyrir, en að það geti numið tugum milljarða króna, þrátt fyrir að undirliggjandi rekstur fyrirtækisins hafi verið þungur undanfarin misseri.