Arion banki hefur samþykkt að kaupa 9,5 prósent hlut í sjálfum sér af Kaupskilum, félagi í eigu Kaupþings, stærsta eiganda bankans. Um er að kaup á eigin bréfum í samræmi við ákvörðun hluthafafundar sem haldin var á mánudag. Þá var samþykkt að bankinn geti greitt allt að 25 milljarða króna út í arð. Til frádráttar kæmu kaup á eigin bréfum. Heildarupphæð viðskiptanna sem nú eru frágengin er 17,1 milljarður króna. Arðgreiðslan sem kemur til viðbótar þessu verður því 7,9 milljarðar króna.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um þær miklu væringar sem eru í eignarhaldi Arion banka nú um stundir. Hann greindi meðal annars frá því á þriðjudag að Kaupþing ætlaði að virkja forkaupsrétt á hlut ríkisins í Arion banka, sem er 13 prósent, í samræmi við samkomulag sem gert var árið 2009, þegar Arion banki var fjármagnaður. Bankasýsla ríkisins sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem nýting kaupréttarins var staðfest. Bankasýslan mun nú taka málið til skoðunar og leggja fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins, sem í sitja Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Þessir aðilar, sem keyptu hlut í Arion banka á þriðjudag, fá hlut í arðgreiðslu/endurkaupum Arion banka á eigin hlutafé. Þeir fá því samtals um 1,3 milljarða króna greidda út.
Arion birti, líkt og áður sagði, uppgjör sitt í gær. Þar kom fram að hagnaður samstæðu Arion banka á árinu 2017 hafi numið 14,4 milljörðum króna samanborið við 21,7 milljarða króna árið 2016. Arðsemi eigin fjár var 6,6 prósent en var 10,5 prósent á árinu 2016.