Mynd: Arion banki Arion banki
Mynd: Arion banki

Lokakaflinn í fléttunni um framtíð Arion banka að hefjast

Búið er að virkja kauprétt á hlut ríkisins í Arion banka. Það gerðist skyndilega í gær. Samhliða var rúmlega fimm prósent hlutur í bankanum seldur til sjóða. Ekki hefur verið upplýst hverjir eru endanlegir eigendur þeirra. Það er allt á fullu við ákvörðun um framtíð Arion banka, og íslensks fjármálakerfis.

Fyrir sex dögum síðan spurði Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra og nú þing­maður Mið­flokks­ins, Bjarna Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­mála­ráð­herra, úr ræðupúlti Alþingis um sölu á 13 pró­sent hlut rík­is­ins í Arion banka.

Sig­mundur Davíð spurði Bjarna hvort að ríkið myndi selja vog­un­ar­sjóð­um, sem eiga ráð­andi hlut í Kaup­þingi, stærsta eig­anda Arion banka, hlut rík­is­ins beint?

Svar Bjarna var: „Það er eng­inn að tala um að selja beinni sölu 13 pró­sent hlut rík­is­ins í bank­an­um. Það er margt sem segir að það væri lang­heppi­leg­ast ef ríkið ætl­aði að fara í sölu á þeim eign­ar­hlut að það væri gert með opnum hætti og í tengslum við skrán­ingu bank­ans á markað þannig að mark­aðslög­málin myndu gilda um það. Hins vegar er það svo að þegar ríkið lagði til fjár­magn til að fjár­magna stofnun Arion banka á sínum tíma á árinu 2009 var veittur kaup­réttur að hlut rík­is­ins, þessum 13 pró­sent, án skil­yrða á fyr­ir­framá­kveðnu verði. Sam­kvæmt þeim kaup­rétti er það ein­hliða ákvörðun þeirra sem halda á kaup­rétt­inum að leysa hlut rík­is­ins til sín. Gagn­vart því þarf engan stuðn­ing eða beiðni eða sam­þykki íslenska rík­is­ins.“

Kaup­réttur skyndi­lega virkj­aður síð­degis á þriðju­degi

Á þessum tíma, í lok síð­ustu viku, stóð stærstu líf­eyr­is­sjóðum lands­ins til boða að kaupa um fimm pró­sent hlut í Arion banka. Þeir höfðu fram á mánu­dag, 12. febr­ú­ar, til að svara því til­boði. Rík­is­stjórnin taldi að ef líf­eyr­is­sjóð­irnir myndu kaupa hlut­inn þá yrði ofan­greindur kaup­réttur virkj­að­ur. Þegar líf­eyr­is­sjóð­irnir ákváðu síðan hver á fætur öðrum að segja pass, meðal ann­ars vega óvissu sem ríkti um skrán­ingu Arion banka á mark­að, var ráð­herra­nefnd um efna­hags­mál og end­ur­skipu­lagn­ingu fjár­mála­kerf­is­ins, sem í sitja auk Bjarna þær Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­­sæt­is­ráð­herra og Lilja Dögg Alfreðs­dótt­ir, mennta- og menn­ing­­ar­­mála­ráð­herra, nokkuð viss um að kaup­rétt­ur­inn yrði ekki nýtt­ur.

Það breytt­ist í gær. Þá var skila­boðum komið til Banka­sýslu rík­is­ins um að vilji væri hjá Kaup­skil­um, félagi í eigu Kaup­þings þar sem vog­un­ar­sjóð­irnir eru stærstu hlut­haf­arn­ir, að virkja kaup­rétt­inn og greiða um 23 millj­arða króna fyrir 13 pró­sent hlut rík­is­ins. Þótt Banka­sýsl­unni hafi enn ekki borist form­legt erindi þá er ljóst að fyrir liggur til­boð sem Katrín, Bjarni og Lilja þurfa að taka afstöðu til.

Sam­hliða fór fram stjórn­ar­fundur hjá Kaup­þingi sem, sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans, stóð fram á nótt. Nið­ur­staða hans var meðal ann­ars sú að tveir af erlendum hlut­höfum bæði Kaup­þings og Arion banka, Attestor Capi­tal og fjár­fest­ing­ar­bank­inn Gold­man Sachs, myndu kaupa 2,8 pró­sent hlut í Arion af Kaup­þingi til við­bótar við það sem þeir áttu. Auk þess keyptu rúm­lega 20 sjóðir í stýr­ingu fjög­urra af stærstu sjóðs­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækjum Íslands: Stefn­is, Íslands­sjóða, Lands­bréfa og Júpít­er, sam­tals 2,54 pró­sent hlut. Sam­an­lagt kaup­verð var um 9,5 millj­arðar króna. Ástæða þess að sú sala var keyrð í gegn í gær er ein­föld: þá var hægt að miða kaup­verðið við níu mán­aða upp­gjör Arion banka. Miðað við það er verðið sem greitt var fyrir 0,805 krónur á hverja krónu af eigin fé sem bank­inn á. Ef verðið hefði farið niður fyrir 0,8 krónur hefði for­kaups­réttur rík­is­ins á hlutnum virkj­ast. Ef við­skiptin hefðu farið fram í dag, mið­viku­dag­inn 14. febr­ú­ar, þá hefði verðið lík­ast farið undir þau mörk. Arion banki birti nefni­lega árs­upp­gjör sitt fyrir árið 2017 síðar í dag.

Kaup­réttur ekki sama og for­kaups­réttur

Í umræð­unni hefur ekki verið gerður skýr grein­ar­munur á ann­ars vegar kaup­rétti og hins vegar for­kaups­rétti sem er til staðar á hlutum í Arion banka. Kaup­rétt­ur­inn sem Kaup­þing vill nýta sér til að eign­ast hlut rík­is­ins í bank­anum byggir á sam­komu­lagi frá árinu 2009, sem þáver­andi stjórn Vinstri grænna og Sam­fylk­ingar gerði við kröfu­hafa Kaup­þings þegar Arion banka var tryggð fjár­mögn­un. For­kaups­rétt­ur­inn er hins vegar hluti af sam­komu­lagi sem rík­is­stjórn Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar gerði árið 2015 við kröfu­hafa föllnu bank­anna, og í felst að virkj­ast ef hlutir í Arion banka eru seldir á lægra verði en 0,8 krónur á hverja krónu af bók­færðu eigin fé Arion banka.

Guðrún Johnsen var látin hætta í stjórn Arion banka í lok nóvember 2017.
Mynd: Arion banki

Ein helsta ástæða þess að vog­un­ar­sjóð­irnir vilja nú nýta sér kaup­rétt sinn er talin vera sú að full­trúi Banka­sýslu rík­is­ins í stjórn Arion banka, Kirstín Þ. Flygenring, hafi sett sig upp á móti því að korta­fyr­ir­tækið Valitor, sem er að fullu í eigu Arion banka, verði aðgreint frá bank­anum og að hluta­bréf í fyr­ir­tæk­inu verði að stærstum hluta greidd út í formi arðs til hlut­hafa. Hún vildi frekar að Valitor yrði selt í opnu sölu­ferli. Þess í stað munu vog­un­ar­sjóð­irn­ir, sem eru með tögl og haldir í Kaup­þingi, eign­ast stóran hluta í Valitor, gangi áform þeirra eft­ir. Þetta vilja þeir gera áður en að Arion banki verður skráður á markað í apríl næst­kom­andi, en stefnt er á að hann verði skráður bæði á Íslandi og í Stokk­hólmi. Með því að kaupa ríkið út þá losna sjóð­irnir við full­trúa Banka­sýsl­unnar úr stjórn Arion banka. Og geta aðgreint Valitor áður en skrán­ingin fer fram.

Það yrði ekki í fyrsta sinn sem vog­un­ar­sjóð­irnir beittu sér fyrir því að stjórn­ar­maður sem er ekki á þeirra línu verði fjar­lægður úr stjórn Arion banka. Það gerð­ist líka í lok nóv­em­ber síð­ast­lið­inn þegar Guð­rún John­sen, sem verið hafði verið vara­for­maður stjórn­ar­inn­ar, var skyndi­lega látin hætta. Hún hafði, sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans, verið gagn­rýnin á það ferli sem var fram und­an. Í hennar stað var Stein­unn Kristín Þórð­ar­dóttir til­nefnd í stjórn­ina af Kaup­þingi.

Miklar breyt­ingar fram undan

Sam­an­dregið þá er uppi sú staða nú að til stendur að selja Valitor til nýrra eig­enda án þess að opið sölu­ferli fari fram og að hlutur rík­is­ins í Arion banka verður mögu­lega seldur án slíks sömu­leið­is, verði það nið­ur­staðan að 23 millj­arða króna til­boð í hann sé nægj­an­lega hátt.

Í kjöl­farið verður ráð­ist í tví­hliða­skrán­ingu Arion banka á mark­að, hér­lendis og í Sví­þjóð. Stefnt er að því að sú skrán­ing muni fara fram í apr­íl. Í aðdrag­anda hennar mun fara fram hluta­fjár­út­boð þar sem Kaup­þing mun bjóða til sölu hluta af eign sinni í bank­an­um. Við­mæl­endur Kjarn­ans telja lík­leg­ast að útboðið muni fara fram með þeim hætti að kaup­endum sem geti keypt stóran hlut verði fyrst boðið að kaupa á lægra verði en verður í almenna útboð­inu. Þar verður fyrst og síð­ast reynt að höfða til íslenskra líf­eyr­is­sjóða enn á ný.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur verið gagnrýnin á það að ríkið gangi ekki inn í kaup á Arion banka. Félag í eigu eiginkonu hans er á meðal eigenda Kaupþings.
Mynd: Bára Huld Beck

Það liggur á að klára sölu á meira af hlutafé Arion banka. Þegar samið var um stöð­ug­leika­fram­lög þá var hluti af sam­komu­lag­inu að ríkið gæfi út skulda­bréf upp á 84 millj­arða króna sem Kaup­þing ætti að greiða með afrakstri sölu hluta­fjár. Líkt og áður sagði þarf slík sala að fara fram á gengi sem er að minnsta kosti 0,8 krónur á hverja krónu af bók­færðu eigin fé Arion banka. Kaup­þingi er ekki heim­ilt að greiða inn á skulda­bréfið með öðrum hætti en með afrakstri hluta­fjár­sölu í bank­an­um. Tak­ist Kaup­þingi ekki að selja hluti til að greiða það niður fyrir árs­lok 2018 getur íslenska ríkið leyst hluti í Arion banka til sín.

Kaup­þing hefur þegar greitt vel inn á skulda­bréf­ið. Eft­ir­stöðvar þess eru nú um 35 millj­arðar króna. Sú greiðsla kom í kjöl­far þess að fjórir af stærstu eig­endum Kaup­þings, Taconic Capi­tal, Och-Ziff Capi­tal Mana­gement Group, sjóðir í stýr­ingu Attestor Capi­tal og Gold­man Sachs, keyptu sam­tals 29,6 pró­sent hlut í Arion banka af sjálfum sér í fyrra.

Alls voru hlut­hafar Kaup­þings 591 í lok árs 2016, sam­kvæmt síð­asta birta árs­reikn­ingi félags­ins. Lang­flestir þeirra voru áður kröfu­hafar í bú Kaup­þings. Á meðal þeirra sem eiga hlut í félag­inu er Wintris sem er í eigu Önnu Sig­­ur­laugar Páls­dótt­­ur, eig­in­­konu Sig­­mundar Dav­­íðs. Wintris á 0,01 pró­sent hlut í Kaup­þingi.

Áferðin skiptir máli vegna skorts á trausti

Áhyggjur íslenskra ráða­manna af þeirri stöðu sem nú er uppi helg­ast ekki bara af því hvort að ríkið fái gott verð fyrir 13 pró­sent hlut sinn í Arion banka. Þær snú­ast líka um þá tor­tryggni og skort á trú­verð­ug­leika sem ógagn­sætt ferli um sölu á hlut í fjár­mála­fyr­ir­tækj­unum Arion banka og Valitor geta vald­ið.

Hér á landi hefur áður farið fram sala á fjár­mála­fyr­ir­tækjum sem reynd­ist síður en svo gegn­sæ. Þannig reynd­ist salan á hlut rík­is­ins í bönkum á árunum 2002 og 2003 að hluta til vera þaul­skipu­lögð svika­mylla. Það var opin­berað í skýrslu rann­sókn­ar­nefndar um aðkomu Hauck & Auf­häuser að kaupum á hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­an­um.

Sama var upp á ten­ingnum þegar rík­is­bank­inn Lands­bank­inn ákvað að selja korta­fyr­ir­tækið Borgun á bak­við luktar dyr til sér­val­ins hóps fjár­festa á verði sem síðar reynd­ist langt undir virði fyr­ir­tæk­is­ins.

Slík vinnu­brögð, og auð­vitað eitt stykki banka­hrun ásamt ara­grúa efna­hags­glæpa sem opin­beraðir voru í kjöl­far þess, hefur skilað því að traust á banka­kerfið mælist ein­ungis 14 pró­sent. Engin stofnun í íslensku sam­fé­lagi mælist með minna traust. Ekki einu sinni Alþingi, sem mælist með 22 pró­sent traust.

Ekk­ert liggur fyrir um hverjir séu end­an­legir eig­endur þeirra erlendu vog­un­ar­sjóða og fjár­mála­fyr­ir­tækja sem eiga stóran hlut í Arion banka. Þá liggur heldur ekk­ert fyrir um hverjir séu end­an­legir eig­endur þeirra rúm­lega 20 sjóða, í stýr­ingu íslenskra sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækja, sem keyptu hlut í Arion banka í gær.

Arður og bónusar

Með kaup­unum sem áttu sér stað í gær hefur skil­yrði fyrir 25 millj­arða króna arð­greiðslu til hlut­hafa Arion banka verið upp­fyllt. Það skil­yrði var að Kaup­­­þing myndi ná að selja að minnsta kosti tvö pró­­­sent af eign sinni í bank­­­anum fyrir 15. apríl næst­kom­andi. Arð­greiðslan gæti orðið minni vegna heim­ildar stjórnar til að kaupa allt að 200 millj­­ónir hluta í bank­­anum á allt að 18,8 millj­­arða króna. Um er að ræða allt að tíu pró­sent hlut í Arion banka. Verði sú heim­ild full­nýtt mun arð­greiðslan nema 6,2 millj­örðum króna. Hvernig sem fer snýst málið um að koma 25 millj­örðum krónum út úr Arion banka og til hlut­hafa hans. Við þetta mun eig­in­fjár­hlut­fall bank­ans lækka um ríf­lega þrjú pró­sent.

Þá geta lyk­il­starfs­menn Kaup­þings farið að hugsa sér gott til glóð­ar­inn­ar. Þeir eiga nefni­lega von á stórum bón­us­greiðslum á allra næstu vik­um. Í ágúst 2016 var greint frá því að um 20 starfs­­­­menn Kaup­­­­þings gætu fengið allt að 1,5 millj­­­­arða króna í bón­us­greiðslur ef mark­mið um hámörkun á virði óseldra eigna myndi nást. Þessar bón­us­greiðslur eiga að greið­­­­ast út eigi síðar en í lok apríl 2018.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar