Glitnir HoldCo, félag utan um eftirstandandi eignir Glitnis banka, hefur áfrýjað til Landsréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í staðfestingarmáli sem höfðað var gegn Stundinni og Reykjavík Media. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur var sú að fella ætti úr gildi lögbann sem sett hafði verið á fréttaflutning miðlanna upp úr gögnum innan úr Glitni. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Það þýðir að lögbann á fréttaflutning Stundarinnar upp úr gögnunum, sem fjallaði fyrst og síðast um fjármál og viðskipti Bjarna Benediktssonar, mun vera í gildi þar til að niðurstaða fæst fyrir Landsrétti.
Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst þann 16. október síðastliðinn á lögbannskröfu þrotabúsins, Glitnis HoldCo gegn fréttaflutningi Stundarinnar og Reykjavik Media, sem er í eigu Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, með þeim afleiðingum að bann var sett á fréttaflutninginn upp úr gögnunum, en meðal þess sem finna má í gögnunum eru upplýsingar um einkamálefni verulegar fjölda fyrrverandi viðskiptavina Glitnis. Á meðal þess sem fjallað hefur verið um ítarlega eru fjármál Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Glitnir HoldCo taldi að upplýsingarnar væru bundnar bankaleynd.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði því 2. febrúar að staðfesta lögbannið. Í forsendum dóms héraðdóms segir meðal annars að Stundin hafi með umfjöllun sinni um málefni þáverandi forsætisráðherra Bjarna Benediktssonar og annarra ekki gengið nær einkalífi þeirra sem um ræddi en óhjákvæmilegt hafi verið í opinberri umræðu í lýðræðissamfélagi um málefni sem varðar almenning og að nægar ástæður hafi þar af leiðandi verið fyrir hendi sem réttlættu birtingu þessara skrifa. Engu breyti þar um hvernig gögnin komust í hendur þeirra né heldur að í þeim séu upplýsingar sem undirorpnar séu bankaleynd.
Í dómnum segir orðrétt um þetta: „Ljóst er að umfjöllun um viðskiptaleg umsvif þáverandi forsætisráðherra og annarra, þar sem meðal annars var vikið að áhættusömum fjárfestingum sem ekki skiluðu tilætluðum árangri eru þáttur í umfjöllun fjölmiðla um afleiðingar útlánastefnu íslenskra viðskiptabanka og áhættusækni íslenskra fjárfesta, sem kann að hafa átt þátt í því hvernig fór. [...] getur skerðing á frelsi fjölmiðla til að fjalla um slík málefni ekki talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi.
Gildir þá einu þótt umfjöllunin byggi á gögnum sem undirorpin eru trúnaði og að birtar hafi verið upplýsingar sem gangi nærri friðhelgi einkalífs tilgreindra einstaklinga. Hvað varðar umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., um málefni annarra einstaklinga en þáverandi forsætisráðherra, þá eru umræddir einstaklingar ýmist tengdir þáverandi forsætisráðherra fjölskylduböndum eða gegnum viðskipti, auk þess sem þeir höfðu á þeim tíma sem umfjöllunin tók til tengsl við Glitni hf. Er það mat dómsins að umfjöllun um málefni þeirra hafi verið svo samofin fréttaefninu í held að ekki verði greint á milli [...]. Þá verða ekki dregnar þær ályktanir af umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., að ætlunin sé að fjalla um málefni handahófskenndra einstaklinga sem ekki eigi erindi til almennings.“