Mikil gremja er sögð komin upp í hluthafahópi greiðslukortafyrirtækisins Borgunar vegna afskipta Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, af því hver myndi taka við stöðu forstjóra í Borgun þegar ljóst var að Haukur Oddsson, þáverandi forstjóri fyrirtækisins, myndi láta af störfum.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, og er Birna sögð hafa talað fyrir því við stjórnarmenn Borgunar að Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, yrði ráðinn forstjóri.
Íslandsbanki er stærsti hluthafi Borgunar, með 63,5 prósent hlut, en íslenska ríkið er eigandi Íslandsbanka. Formaður stjórnar Borgunar er Erlendur Magnússon, og er Íslandsbanki með þrjá stjórnarmenn af fimm. Aðrir í stjórn eru Björg Sigurðardóttir, Halldór Kristjánsson, Óskar Veturliði Sigurðsson og Sigrún Helga Jóhannsdóttir.
Í Morgunblaðinu segir að þegar hafi verið ákveðið að óska ekki eftir kröftum tveggja stjórnarmanna, á aðalfundi í mars, þeim Erlendi stjórnarformanni og Sigrúnu Helgu.
Eignarhaldsfélagið Borgun slf. á rúmlega 32 prósent hlut, og BPS ehf. tvö prósent.
Í Morgunblaðinu segir að beiðni Birnu hafi verið illa tekið, þar sem hún gekk þvert á þann vilja stjórnarinnar að ráða Sæmund Sæmundsson til starfa. Varð niðurstaðan sú að Sæmundur var ráðinn, og tók hann við af Hauki Oddssyni.