Starfshópur um málefni kjararáðs telur það ekki færa leið að setja lög um afturvirka endurskoðun ákvarðana kjararáðs sem hefðu í för með sér endurgreiðslukröfu. Þá telur meirihluti hópsins heldur ekki fært né efnislegar forsendur fyrir því að lækka almennt laun þeirra sem eiga undir kjararáð til framtíðar. „Meirihlutinn bendir á að ef laun þeirra verða óbreytt til ársloka 2018 myndi kjararáðshópurinn að meðaltali taka hækkunum sem ekki eru í ósamræmi við almenna launaþróun. Fulltrúi ASÍ í starfshópnum telur það færa leið að lækka með lögum laun embættismanna og kjörinna fulltrúa.“
Þetta kemur fram í tillögum sem fylgja skýrslu hópsins sem birt var í dag.
Það þýðir til að mynda að laun þingmanna og ráðherra, sem voru hækkuð um tugi prósenta með ákvörðun kjararáðs haustið 2016, verða ekki lækkuð með lagasetningu.
Hópurinn starfaði í tæpan mánuð
Hópurinn var skipaður 19. janúar síðastliðinn. Hlutverk hans var að bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana kjararáðs, sé annað fyrirkomulag talið líklegra til betri sáttar í þjóðfélaginu til framtíðar um ákvörðun launa þeirra sem stöðu sinnar vegna njóta ekki samningsréttar.
Auk þess á starfshópurinn að taka til skoðunar úrskurði kjararáðs, meta með hliðsjón af launasetningu og launabreytingum þeirra stétta sem samningsfrelsis njóta og þeirri launastefnu sem samið var um við meginþorra launafólks og eftir atvikum leggja fram tillögur um úrbætur.
Ástæðan var það mikla launaskrif sem verið hefur hjá hópum sem heyra undir kjararáð, sem eru æðstu stjórnendur hjá ríkinu og dótturfyrirtækjum þess.
Æðstu embættismenn þjóðarinnar hækkað um tugi prósenta
Mesta athygli vakti ákvörðun kjararáðs frá því í október 2016, þegar ráðið ákvað að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra.
Samkvæmt úrskurði kjararáðs urðu laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi varð 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi urðu 1.826.273 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra voru áður tæplega 1,5 milljónir en laun forseta voru tæpar 2,5 milljónir. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
Aðstoðarmenn ráðherra hafa líka fengið duglega launahækkun á undanförnum árum. Sumarið 2016 voru laun skrifstofustjóra í ráðuneytum hækkuð um allt að 35 prósent. Eftir þá hækkun eru laun aðstoðarmanna, sem miða við þau laun, um 1,2 milljónir króna á mánuði.
Í desember hækkaði kjararáð svo laun biskups, Agnesar Sigurðardóttur, um tugi prósenta. Í úrskurði vegna þessa kom fram að biskup skuli hafa tæplega 1,2 milljónir í mánaðarlaun auk 40 fastra yfirvinnueininga. Ein eining er 9.572 krónur og laun biskups því eftir hækkun alls 1.553.359 krónur á mánuði.
Hækkunin var afturvirk til 1. janúar 2017, samkvæmt úrskurðinum. Um áramót fékk biskup því eingreiðslu fyrir síðasta árið en sú upphæð nemur 3,3 milljónir króna.
Launaþróun víkur ekki merkjanlega frá almennri þróun
Helstu niðurstöður starfshópsins eru þær að launaákvarðanir kjararáðs hafi ítrekað skapað ósætti og leitt til óróa á vinnumarkaði. Lögbundið viðmið Kjaradóms og síðar kjararáðs hafi verið óskýr og ósamrýmanleg. Alþingi hefur ítrekað hlutast til um endurskoðun úrskurða. Starfshópurinn telur því margt mæla með því að gjörbreyta núgildandi fyrirkomulagi.
Hópurinn telur að gagnsæi og fyrirsjáanleika skorta um launaákvarðanir og raunveruleg laun. Hann bendir á að í nágrannalöndunum séu ákvarðanir um laun kjörinna fulltrúa nánast undantekningarlaust teknar einu sinni á ári. Endurskoðun fylgir skilgreindri launaþróun næsta ár á undan og að samanburður á launum æðstu embættismanna, dómara og kjörinna fulltrúa bendi ekki til þess að þau víki verulega frá því sem er í samanburðarlöndunum.
Þá segir í niðurstöðum hópsins að launaþróun þeirra sem eigi undir kjararáð víki ekki merkjanlega frá almennri þróun launa á tímabilinu 2006-2018. Á því tímabili sem kveðið er um í rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisins hafi laun þeirra hækkað um 35-64 prósent en almenn þróun launa virðist liggja á bilinu 43-48 prósent.