„Ég get aldrei fyrirgefið forystunni svikin við alþýðuna með svo margvíslegum hætti sem gerðist hér eftir hrun. Þetta er staðan sem við erum með uppi í dag út frá því. Ég býð mig fram sem formann VR sem vantraust á forystu Alþýðusambandsins. Sem mér finnst vera í bílstjórasætinu í þessu vantrausti á verkalýðshreyfinguna sem við sitjum uppi með. Þetta er ekki bara VR. Við erum að sjá þetta í Eflingu og við erum búin að sjá þetta í Kennarasambandinu.“ Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í nýjasta sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Þar segir Ragnar að fæstir virðist finna og sjá það meinta góðæri sem eigi að standa yfir á Íslandi og að fólk sé orðið þreytt á þeirri stöðu sem boðið sé upp á. Ef róttækt framboð Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sem einnig var gestur þáttarins, sigrar í stjórnarkjöri í Eflingu sé komið allt annað landslag í íslenskri verkalýðsbaráttu.
Dró viglínu
Ragnar segir að hann hafi þurft að taka ákvörðun um að leggja allt í baráttu sína fyrir réttlátara samfélagi þegar hann hóf skrif um spillingu innan lífeyrissjóða fyrir mörgum árum síðan. Hann segist hafa gert sér það ljóst að með því væri hann að fara gegn kerfinu og að það myndi geta haft áhrif á atvinnumöguleika hans.
„Það var ákvörðun sem ég þurfti að taka að gera þetta af ákveðinni hugsjón og setja allt í þetta. Það endaði með átta ára stjórnarsetu í VR. Í staðinn fyrir að hætta þá ákvað ég að taka formannsslaginn. Leggja dálítið spilin á borðið og draga svolitla víglínu, vegna þess að mér fannst þeir sem á undan mér hafa ekki farið gegn því sem er að í okkar samfélagi.“
Þar nefnir Ragnar vexti, verðtryggingu, aðkoma lífeyrissjóða að fjármálakerfinu og tengingu verkalýðshreyfingarinnar við fjármálakerfið í gegnum lífeyrissjóðina. Hreyfingin hafi sýnt algjört getuleysi í að taka stöðu með fólkinu í landinu.