Vísitala íbúðaverðs hækkaði um eitt prósent milli mánaða í janúar.
Um er að ræða mestu hækkun vísitölu íbúðaverðs milli mánaða síðan í maí í fyrra, en þá hækkaði íbúðaverð um 1,8 prósent milli mánaða. Árshækkun hækkun íbúðaverðs mælist nú 12,8 prósent.
Vísitala íbúðaverðs hefur nú hækkað tvo mánuði í röð eftir að hafa lækkað milli mánaða í nóvember, að því er segir í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði. „Undanfarin þrjú ár hefur vísitala íbúðaverðs að meðaltali hækkað um 0,99% milli mánaða og er mánaðarhækkunin nú því í takt við meðaltal undanfarinna þriggja ára. Síðan mælingar hófust árið 1994 hefur vísitala íbúðaverðs hins vegar hækkað að meðaltali um 0,63% milli mánaða,“ segir í umfjöllun Íbúðalánasjóðs.
Hækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu, undanfarin ár, hefur verið mikil og ör, í alþjóðlegum samanburði. Töluverðrar spennu hefur gætt á markaðnum, þar sem mikil vöntun er á íbúðum. Á næstu árum er gert ráð fyrir að þúsundir íbúða muni koma út á markað til að mæta aukinni eftirspurn.