Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata talaði í dag fyrir afnámi á banni við heimabruggun áfengis til einkaneyslu.
Helgi hefur lagt frumvarpið fram áður án þess að það hafi hlotið afgreiðslu.
Í frumvarpinu kemur fram að framleiðsla áfengis sé samkvæmt núgildandi lögum heimil í atvinnuskyni með leyfi útgefnu af ríkislögreglustjóra. Hins vegar sé framleiðsla áfengis til einkaneyslu með öllu óheimil.
Helgi Hrafn og meðflutningsmenn hans á frumvarpinu halda því fram í greinargerð sem því fylgir að áfengisneysla sé rótgróinn hluti af íslenskri menningu. Hann segir að þrátt fyrir bannið hafi framleiðsla áfengis til einkaneyslu tíðkast mjög víða og mjög lengi í samfélaginu án þess að tekið hafi verið á þeim brotum. „Þvert á móti hefur á undanförnum árum orðið til rík menning heimabruggunar, en athygli vekur að fólk sem stundar heimabruggun gerir jafnan enga tilraun til að fela hana.“ Að auki segir að lítil meðvitund virðist vera um að athæfið sé yfirleitt bannað.