Solaris – hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi fordæma vinnubrögð við brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum. Í henni segir að yfirvöld hafi ítrekað gerst sek um ómannúðleg og óásættanleg vinnubrögð, brot á mannréttindum fólks á flótta og brot á verkferlum stjórnvalda við fylgd umsækjenda um vernd úr landi eftir synjun.
„Á vef Útlendingastofnunar segir að „verklag stjórnvalda byggir á því að tryggja faglega, skipulega og mannúðlega framkvæmd við fylgd umsækjenda um vernd úr landi.“ Stoðdeild ríkislögreglustjóra, sem framkvæmir brottvísun eftir ákvörðun Útlendingastofnunar, skal „leggja áherslu á samvinnu við umsækjanda við undirbúning og framkvæmd fylgdar úr landi. Starfsmenn deildarinnar gæta þess að framkvæmd ákvarðana fari faglega fram með virðingu fyrir mannlegri reisn þess sem í hlut á og tryggja að framkvæmdin sé í samræmi við löggjöf og öryggisviðmið.“ Þá segir einnig að talsmaður viðkomandi skuli vera upplýstur og „kanna skal hvort viðkomandi eigi ólokið erindum eða málum fyrir stjórnvöldum.“ Þar að auki kemur fram á vefnum að „leitast skal við að tilkynna viðkomandi um nákvæma dagsetningu brottfarar eins fljótt og unnt er, helst að lágmarki með tveggja daga fyrirvara eða strax og dagsetning brottfarar liggur fyrir.“ Á vef lögreglunnar segir hinsvegar að „haft er samband við þann sem flytja á með góðum fyrirvara og honum/henni tilkynnt hvað muni gerast og þá hugsanleg dagsetning á framkvæmd, um það bil tvær vikur fram í tímann,“ segir í tilkynningunni.
Jafnframt segir, að stjórn Solaris, hafi á undanförnum vikum borgist margar frásagnir af brottvísunum umsækjenda um alþjóðlega vernd sem eru alls ekki í samræmi við verkferla stjórnvalda. „Ítrekað hafa einstaklingar og fjölskyldur verið sóttar án nokkurs fyrirvara og sendar úr landi, framkvæmdin hefur verið ómannúðleg og ekki í neinu samstarfi við viðkomandi og/eða talsmenn, td. lögfræðinga þeirra,“ segir í tilkynningunni.
Skilningsleysið algjört
Solaris minnast sérstaklega á mál Houssin, drengs frá Marokkó, sem nú hefur verið sendur úr landi. Hann varð meðal annars fyrir hrottalegri líkamsárás á Litla Hrauni, þar sem hann var um tíma vistaður. „Yfirvöld hafa síendurtekið brugðist Houssin, sem m.a. varð fyrir hrottalegu ofbeldi í fangelsi, nú síðast með því að senda hann úr landi í gær án nokkurs fyrirvara og samvinnu auk brots á upplýsingaskyldu. Slík vinnubrögð eru ómannúðleg og algjörlega óásættanleg og ber að fordæma. Stefnuleysi stjórnvalda í málefnum fólks á flótta er mikið áhyggjuefni. Stjórn Solaris skorar á alla ábyrgðaraðila, ríkislögreglustjóra, útlendingastofnun, dómsmálaráðherra og stjórnvöld að bregðast strax við því ófremdarástandi sem upp virðist komið í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi. Móta þarf stefnu í málaflokknum. Endurskoða og samræma þarf verkferla og sjá til þess að þeim sé ávallt framfylgt. Endurskoða þarf vinnubrögð Útlendingastofnunar og annarra viðeigandi aðila til þess að tryggja mannúð og mannlega reisn og að mannréttindi fólks á flótta séu virt,“ segir í yfirlýsingunni.