Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar sagði dagskrá þingsins þessa vikuna ekki upp á marga fiska. Eiginlega ekkert væri á dagskrá af hálfu ríkisstjórnarinnar. „Ef við værum í fiskvinnslu væri sennilega búið að senda okkur heim vegna hráefnisskorts.“
Hann sagði þau fáu mál sem væru á dagskránni séu ýmist smávægilegar lagfæringar eða endurflutt mál nær óbreytt frá fyrri ríkisstjórn.
Málefnaskrá ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að búið verði að leggja fram 86 frumvörp eða þingsályktunartillögur í lok febrúar. Þorsteinn sagði málin frá ríkisstjórninni nú orðin um 30, þegar skammt væri eftir af febrúarmánuði. Tveir af þeim flokkum sem nú sætu í ríkisstjórn hafi gagnrýnt mjög öttullega síðustu ríkisstjórn fyrir verkleysi á fyrstu dögum hennar, þó að hún hefði á sama tíma verið búin að leggja fram um 60 mál.
„Mér þykir þetta verkleysi ríkisstjórnarinnar vera farið að verða heldur vandræðalegt,“ sagði Þorsteinn og benti á að vegna sveitarstjórnarkosninga í vor færi þingið óvenjusnemma heim, auk þess sem framundan væri hálfs mánaðar páskaleyfi. „Það er ekki verið að ætla þinginu mjög langan tíma til að vinna þau 110 mál sem enn eru ókomin, samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Þetta finnst mér ekki vinnubrögð til fyrirmyndar.“