Ingvar Jónsson, flugstjóri hjá Icelandair og fyrrverandi varaborgarfulltrúi og varaþingmaður Framsóknarflokksins, mun leiða lista flokksins í Reykjavík fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor.
Ingvar er 44 ára gamall og uppalinn í Breiðholti og Hlíðunum. Hann hóf flugnám árið 1991 og hefur starfað hjá Icelandair síðan 1996. Þá er Ingvar stjórnarformaður Vinnumálastofnunar.
Í tilkynningu frá flokknum er haft eftir Ingvari að Reykjavík sé frábær borg en að hægt sé að gera betur. „Við þurfum raunhæfar lausnir í samgöngum og ég legg mikla áherslu á að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri. Við viljum við setja fjölskylduna í fyrsta sæti og forgangsraða í þágu leik- og grunnskóla, ásamt því að taka húsnæðismál í borginni til gagngerrar endurskoðunar. Þá hefur grunnþjónustu hrakað mikið undanfarin ár og þeirri þróun þarf að snúa við. Borgarbúar eiga betra skilið.“
Ingvar starfaði meðfram námi meðal annars sem þáttastjórnandi hjá Sjónvarpinu, fangavörður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og í Síðumúlafangelsinu, rútubílstjóri og fararstjóri, og sem leiðbeinandi hjá Rauða krossinum.
Listi Framsóknar:
1. Ingvar Mar Jónsson, flugstjóri og fyrrverandi varaþingmaður og varaborgarfulltrúi.
2. Snædís Karlsdóttir, lögfræðingur.
3. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, kennari og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
4. Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, kennari.
5. Sandra Óskarsdóttir, kennaranemi og stuðningsfulltrúi
6. Bergþór Smári Pálmason Sighvats, nemi.