Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að frumvarp sem banni umskurð drengja ekki aðeins fela í sér aðför að rétti gyðinga heldur myndi felast í lögfestingu þess birtingarmynd óvildar í garð þeirra.
Þetta kemur fram í grein sem Kári skrifar í Fréttablaðið í dag.
Í grein sinni segir hann gyðinga, sem hann hafi mikla reynslu af samstarfi við á sviði læknavísinda, hafa sett sig í samband við hann að undanförnu, og lýst yfir áhyggjum af því að Íslandi ætli sér að banna umskurð drengja. „Lög sem þessi myndu í prinsippinu gera það ólöglegt að vera Gyðingur á Íslandi vegna þess að umskurðurinn (brit milah) er órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd Gyðinga. Hann er líkamlegt tákn sambandsins milli guðs og Gyðinga,“ segir Kári.
Hann segir auk þess að lögin, ef þau yrðu að veruleika, myndu vega að rétti foreldra til að taka ákvarðanir fyrir hönd barna sinna. „Lög sem þessi vegi að rétti foreldra til þess að taka ákvarðanir fyrir hönd barna sinna sem hefur verið höndlaður sem allt að heilagur á Íslandi fram til þessa. Íslenskt réttarkerfi hefur verndað rétt foreldra til þess að taka ákvarðanir sem vega ótrúlega miklu meira að heilsu barna þeirra heldur en umskurður piltbarna. Til dæmis má nefna að foreldrum sem tilheyra Vottum Jehóva hefur haldist uppi að meina læknum að gefa börnum þeirra blóð þótt líf þeirra hangi á spýtunni vegna þess að þau hafa trúað því að sá hreinleiki sem glatist við blóðgjöfina sé meira virði en aukin geta til þess að flytja lífsnauðsynlegt súrefni til líffæra barnsins. Og það er litið svo á að foreldrar hafi lögbundinn rétt til þess að reykja í kringum kornabörn sín og neyta áfengis og haga sér á ýmsan þann máta sem býr til hættu fyrir heilsu barnsins,“ segir Kári.
Þá segir hann flytjendur frumvarpsins ýkja stórum hættuna af umskurði piltbarna. „Í því sambandi má benda á að 80% piltbarna í Bandaríkjunum eru umskorin og eru því í kringum 130 milljónir karlmanna í Bandaríkjunum sem hafa lifað aðgerðina af og 4,5 milljónir sem eru umskornar á ári hverju. Ég vann sem læknir í Bandaríkjunum í tvo áratugi og hitti aldrei fyrir mann sem hafði lent í vandræðum út af umskurði,“ segir Kári.