„Tíminn vinnur ekki með okkur. En það sem við erum að gera er að við erum að taka aðgerðirnar, við erum að meta þær og bæta við og athuga hvað þetta mun kosta ríkissjóðs Íslands. Ég á reglulega stöðufundi með því teymi sem vinnur að þessu þannig að ég er að vonast til þess að ég er að vonast til þess að ég verði komin með nokkuð skýra mynd á næstu mánuðum.“
Þetta sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut sem frumsýndur var í gærkvöldi þegar hún var spurð um vinnu vegna tillagna sem nefnd sem um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla skilaði af sér til hennar í janúar. Hægt er að sjá brot úr þættinum í spilaranum hér að ofan.
Nefndin gerði alls tillögur um aðgerðir í sjö liðum sem gætu bætt rekstrarskilyrði fjölmiðla. Þær snúa meðal annars að stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, skattalegu umhverfi, textun og talsetningu og endurgreiðslu framleiðslukostnaðar á fréttum og fréttatengdu efni. Þá er einnig ítarleg samantekt um opinberan stuðning við fjölmiðla í helstu nágrannaríkjum auk sérálits tveggja nefndarmanna.
Lilja sagði að markmiðið væri að styðja við rekstrarlegt umhverfi fjölmiðla. „Samkeppnin, sem kemur líka erlendis frá, hún er alveg gríðarleg og ég hugsa að hún hafi aldrei verið meiri[...]Við sjáum verulega rekstrarerfiðleika í greininni og það er bara þannig að þetta þarf að vera gott umhverfi. Þið veitið okkur aðhald, ekki bara okkur heldur öllu samfélaginu, og það gerir okkur öll held ég aðeins öflugri fyrir vikið.“
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að neðan.