Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, býður sig fram til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Þórdísi.
Hún segist þakklát fyrir að hafa fengið að gegna margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn á undanförnum árum en hún hefur verið framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna, aðstoðarmaður Ólafar Nordal dómsmálaráðherra og frambjóðandi í tvennum alþingiskosningum auk þess að fá embætti ráðherra í tveimur ríkisstjórnum. „Þetta hafa verið krefjandi verkefni en fyrst og fremst gefandi, því að það er í senn ástríða mín og forréttindi að vinna að framgangi sjálfstæðisstefnunnar, eiga samtöl og samvinnu við fólk og hlúa að framtíð og tækifærum íslensks samfélags,“ segir Þórdís. Hún segir það hafa verið dýrmætt að fá hvatningu víða að og hún vegur þungt í hennar ákvörðun. „Ég hlakka til að eiga samtöl við sem flesta á næstu dögum og vikum um sóknarfæri okkar Sjálfstæðismanna.“
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram 16. - 18. mars þar sem kosið verður um forystu flokksins. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins gegnir nú tímabundið embætti varaformanns eftir andlát Ólafar Nordal.
Ekki fleiri hafa lýst yfir framboði í embættið enn, en í Morgunblaðinu í gær sagðist Haraldur Benediktsson vera að hugsa málið eftir hvatningu þess efnis frá mörgum.