Framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna telur „ólíðandi“ Bragi Guðbrandsson forstjóri Barneverndarstofu hafi verið útnefndur sem framboðsefni Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Þetta kemur fram í ályktun frá ungliðahreyfingu flokksins, sem birtist á Facebook síðu hennar.
Í ályktuninni er vitnað til þess að barnaverndarnefndir hafi víða um land gagnrýnt forstjórann, meðal annars fyrir að hlutast til í kynferðisbrotamálum og ófagleg vinnubrögð. „Ung vinstri græn telja ólíðandi að Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofiu hafi verið útnefndur sem framboðsefni Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Barnaréttarnefnd sameinuðu þjóðanna hefur það hlutverk að tryggja að þjóðir fari eftir Barnasáttmálanum en gagnrýni á vinnubrögð Braga beinast meðal annars af því að hann sjálfur og Barnaverndarstofa færu ekki ávallt eftir Barnasáttmálanum. Frá því í nóvember hafa starfsmenn barnaverndarnefnda víða um land stigið fram og sagt frá andlegu ofbeldi af hálfu Braga, ófaglegum vinnubrögðum og því að Bragi hafi hlutast til í kynferðisbrotamálum,“ segir í ályktuninni.
Þá krefjast ung Vinstri græn þess að Ásmundur Einar Daðason, velferðarráðherra, dragi útnefndinu Braga til baka. „Maður sem sakaður er um alvarleg brot í starfi og mismunun í málsmeðferð á ekki að vera fulltrúi Íslands í nefnd sem þessari. Börn eiga alltaf að njóta vafans,“ segir í ályktuninni.
Síðastliðinn föstudag samþykkti ríkisstjórnin að sækjast eftir sæti fyrir Íslands hönd í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Bragi Guðbrandsson verður fulltrúi Íslands í kjöri til nefndarinnar, en í henni sitja 18 sérfræðingar og hafa þeir það hlutverk að fylgjast með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Ásmundur Einar veitti Braga leyfi til eins árs frá starfi sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu. „Staða Braga sem frambjóðanda Íslands er talin sterk vegna áratuga reynslu hans af málaflokknum og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði,“ segir í tilkynningu frá ráðuneyti Ásmundar Einars.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í kvöld, þá hefur Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi velferðarráðherra og þingmaður Viðreisnar, hvatt Ásmund Einar til að opinbera gögn um niðurstöðu rannsóknar velferðarráðuneytisins, þar sem fjallað var um störf Braga og deilur við barnaverndarnefndir á höfuðborgarsvæðinu og víðar á landinu.
Bragi er nú kominn í eins árs leyfi frá störfum sínum, og mun sinna framboði sínu, og sérverkefnum fyrir ráðherra. Í tilkynningunni er jafnframt tekið fram, að samhliða undirbúningi vegna framboðs síns muni Bragi sinna afmörkuðum verkefnum í velferðarráðuneytinu sem snúa að „tilteknum áherslumálum ráðherra í málefnum barna samkvæmt samningi þar að lútandi.“
Segir í tilkynningunni að þar sé einkum horft til þess að „tryggja börnum og fjölskyldum þeirra sem skjótasta íhlutun og stuðla að heildstæðri nálgun og samfellu þjónustunnar þannig að hún mæti sem best þörfum barna og fjölskyldna hverju sinni,“ segir í tilkynningunni.