Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra segir að niðurstöður rannsóknar velferðarráðuneytisins á störfum forstjóra Barnaverndarstofu séu þær að Bragi Guðbrandsson fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu hafi ekki gerst brotlegur í starfi með nokkrum hætti. Aftur á móti hafi verið álitamál sem þurfi að fara ofan í.
Þetta kom fram í svari hans við óundirbúinni fyrirspurn Halldóru Mogensen þingmanns Pírata á Alþingi í dag.
Hann segir jafnframt að staða Braga sé sterk eftir 20 ára reynslu í starfi.
Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar segir í pontu Alþingis ásakanirnar á hendur Braga vera af alvarlegum toga og að þær hafi ekki verið settar fram af léttúð. Barnaverndarnefnd hafi farið fram á að forstjórinn yrði metinn vanhæfur og annar fenginn í hans stað.
Ásmundur Einar ítrekar að Barnaverndarstofa og Bragi hafi ekki brotið af sér en að ljóst þyki að ráðast þurfi í ákveðnar breytingar. Hann sé sammála þessari niðurstöðu og segir hann ennfremur að Bragi sé frambærilegur frambjóðandi fyrir hönd Íslands.
Þorsteinn sagði á Facebook-síðu sinni í gær að Ásmundur Einar hljóti að opinbera niðurstöðu á rannsókn velferðarráðuneytisins vegna kvartana barnaverndarnefnda höfuðborgarsvæðisins yfir störfum Braga.
Síðastliðinn föstudag samþykkti ríkisstjórnin að sækjast eftir sæti fyrir Íslands hönd í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Bragi Guðbrandsson verður fulltrúi Íslands í kjöri til nefndarinnar en í henni sitja 18 sérfræðingar og hafa þeir það hlutverk að fylgjast með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Ásmundur Einar veitti Braga leyfi til eins árs frá starfi sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu. „Staða Braga sem frambjóðanda Íslands er talin sterk vegna áratuga reynslu hans af málaflokknum og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði,“ segir í tilkynningu frá ráðuneyti Ásmundar Einars.