Velferðarráðuneytið hefur birt bréf ráðuneytisins til þriggja barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu og til Barnaverndarstofu þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum ráðuneytisins vegna umkvartana nefndanna varðandi samskipti þeirra við Braga Guðbrandsson forstjóra og starfsfólk Barnaverndarstofu.
Þetta kemur fram í vef ráðuneytisins, en ritsjórn Kjarnans á eftir að rýna efni þeirra og greina frá innihaldinu.
„Velferðarráðuneytið hefur sent meðfylgjandi bréf til hlutaðeigandi aðila. Í bréfunum er gerð grein fyrir þeim niðurstöðum sem ráðuneytið hefur komist að eftir að fara yfir formlegar umkvartanir sem því bárust frá barnaverndarnefndum Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbæjar, í kjölfar fundar formanna þessara nefnda og barnaverndarnefndar Kópavogs með þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra 10. nóvember á liðnu ári, og greinargerð með afstöðu Barnaverndarstofu til þeirra umkvartana sem ráðuneytið óskaði eftir með bréfi 21. nóvember síðastliðinn,“ segir á vef ráðuneytisins.
Eins og fram kom í tilkynningu velferðarráðuneytisins sem birt var á vef þess síðastliðinn föstudag eru áformaðar ýmsar breytingar á sviði barnaverndar „til að efla og þróa barnaverndarstarf í landinu, styrkja stjórnsýslu málaflokksins og bæta eftirlit“ að því er fram kemur á vef ráðuneytisins.
Meðal breytinga sem á að leiða fram er að koma á skýrum formkröfum um samskiptahætti stjórnvalda sem gegna hlutverki á sviði barnaverndar.
Ásmundur Einar Daðason, velferðarráðherra, hafði samband við formann velferðarnefndar um nýliðna helgi og óskaði eftir fundi með nefndinni, að því er fram kemur á vef ráðuneytisins, þar sem hann mun gera grein fyrir niðurstöðum og sitja fyrir svörum. Fundur hefur verður ákveðinn næsta miðvikudag, 28. febrúar.