Tæknifyrirtækið Maroka, sem meðal annars hefur þjónustað skipaiðnað víða um heim og aðstoðað við að draga úr mengun og auka hagkvæmni, er á leið í greiðslustöðvun, en starfsfólki fyrirtækisins var tilkynnt um þetta í dag, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Ekki er útlit fyrir að starfsfólk fái greitt um mánaðarmótin samkvæmt upplýsingum sem starfsfólk fékk.
Hallað hefur undan fæti í rekstri fyrirtækisins að undanförnu, og fór svo að lokum að ákvörðun var tekin um að hætta starfsemi.
Þýski sjóðurinn Mayfair er stærsti eigandi fyrirtækisins með yfir 70 prósent eignarhlut, en fyrirtækið hefur meðal annars verið með skrifstofur í Singapúr, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Þýsklandi. Saga fyrirtækisins spannar yfir 15 ára tímabil.
Forstjóri fyrirtækisins er Juergen Kudritzki og fjármálastjóri Peter Callow, samkvæmt upplýsingum á vef fyrirtækisins, en ekki hefur náðst samband við þá í dag.