Stjórnvöld segjast tilbúin í margvíslegar aðgerðir í þágu félagslegs stöðugleika á almennum vinnumarkaði.
Í minnisblaði sem birt hefur verið á vef stjórnvalda, kemur fram að stjórnvöld séu meðal annars tilbúin til að styrkja sjóði eins og Ábyrgðasjóð launa, Atvinnuleysistryggingasjóð, Vinnustaðanáms- og Fræðslusjóð. Þá er einnig tekið fram sérstaklega að stjórnvöld séu tilbúin til aðgerða í gegnum tekjuskattskerfið.
Það verður einkum horft til þess að minnka skattbyrði og „mögulegar breytingar á fyrirkomulagi persónuafsláttar og samspili við bótakerfi sem ætlað er að styðja við tekjulægri hópa (lágtekjur og lægri millitekjur),“ eins og það er orðað í minnisblaðinu.
Samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins hófst í desember síðastliðnum, og hafa fundir verið haldnir um einstök mál, eins og félagslegar undirstöður, vinnumarkaðstengda sjóði og fjármögnun þeirra, menntamál, efnahagsmál, kjararáð og undirstöður launatölfræði, að því er segir í minnisblaðinu.
Meðal þess sem horft er til, er að undirbua upptöku launaupplýsinga frá öllum launagreiðendum að norskri fyrirmynd. Þá er einnig horft til þess að útvíkka hlutverk þjóðhagsráðsins til að tryggja samhengi og jafnvægi efnahagslegs og félagslegs stöðugleika í umræðu um stjórn opinberra fjármála, peningastefnu og kjaramála.
Í minnisblaðinu er fjallað um þau fjögur atriði sem stjórnvöld eru tilbúin að koma með að borðinu, til að tryggja félagslegan stöðugleika og meiri ró á almennum vinnumarkaði.
Þau fara orðrétt, eins og þau koma fyrir í minnisblaðinu, hér á eftir.
1. Ábyrgðasjóður launa Stjórnvöld eru reiðubúin til að hækka hámarksfjárhæð mánaðarlegra greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa án þess að samtímis sé hreyft við því gjaldi sem greitt er til sjóðsins. Hámarksgreiðsla er nú 385 þús. kr. á mánuði vegna launamissis í allt að 3 mánuði, auk tryggingar á greiðslu orlofs allt að 617 þús. kr. Hámarksgreiðsla á mánuði verður 633 þús. kr. og gildir frá 1. júlí 2018.
2. Atvinnuleysistryggingar Atvinnuleysisbætur verða hækkaðar og stofnað verður til samráðs milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um skilgreiningu á jafnaðargjaldi í Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem horft er til sjálfbærni sjóðsins til lengri tíma litið og sveiflujöfnunarhlutverks hans í hagstjórnarlegu tilliti. Ákvörðun um breytingar á fjárhæðum atvinnuleysistrygginga felur í sér að bætur hækki og verði 90% af dagvinnutekjutryggingu og tekur breytingin gildi frá 1. maí nk.. Sérstakur starfshópur, skipaður fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis, velferðarráðuneytis og fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, fær það hlutverk að leggja mat á stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs og gera tillögur um þau hlutlægu viðmið sem lögð verði til grundvallar ákvörðun um atvinnuleysistryggingagjald til lengri tíma og yfir hagsveifluna. Sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki til efnahagslegrar sveiflujöfnunar. Í tengslum við þessa vinnu verði hugað að mögulegri styttingu bótatímabilsins í 24 mánuði þannig að það verði sambærilegt við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Starfshópurinn skal skila af sér í haust.
3. Tekjuskattskerfið Hafin verður endurskoðun á tekjuskattskerfinu með áherslu á lækkun skattbyrði og mögulegar breytingar á fyrirkomulagi persónuafsláttar og samspili við bótakerfi sem ætlað er að styðja við tekjulægri hópa (lágtekjur og lægri millitekjur). Meðal þess sem skoðað verður er að sett verði á fót heildstætt kerfi er taki jafnt til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og stuðnings vegna húsnæðiskostnaðar, hvort heldur er fyrir íbúðareigendur eða leigjendur. Þessi vinna verður undir forystu fjármála- og efnahagsráðuneytis í samstarfi við samtök launþega í því skyni að sem breiðust samstaða geti náðst um áherslur og endanlegar breytingar. Ætlunin er að ljúka þessari vinnu á haustmánuðum 2018 áður en fjárlög ársins 2019 verða afgreidd. Stjórnvöld skuldbinda sig til samtals um skattlagningu greiðslna úr sjúkrasjóðum. Kannaðir verði möguleikar á því að tryggja skattleysi slíkra greiðslna til launþega vegna heilbrigðisþjónustu, svo sem sálfræðiþjónustu og tannlækninga, án neikvæðra áhrifa á skattframkvæmd.
4. Fræðslusjóður og Vinnustaðanámssjóður
Gerð verður úttekt á stöðu Fræðslusjóðs og Vinnustaðanámssjóðs með tilliti til skilvirkni og árangurs.
Samstaða er um að tryggja verði námsúrræði og tækifæri fyrir þá sem litla menntun hafa á
vinnumarkaði og að sérstaklega þurfi að tryggja að nám þeirra sem stunda starfs- eða verknám á
vinnustað sé í samræmi við skilgreind náms- og færnimarkmið. Ef sýnt er að aukinna fjármuna sé þörf
til að tryggja þessi markmið munu stjórnvöld bregðast við því. Þessari vinnu mun ljúka á
haustmánuðum 2018 áður en fjárlög ársins 2019 verða afgreidd.