Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur óskað eftir upplýsingum um það hvernig vopnaflutningum hafi verið háttað hér á landi síðastliðin tíu ár.
Engar fleiri undanþágur verða veittar fyrr en búið sé að skoða allt regluverk. Frá þessu var greint í fréttum RÚV í kvöld, en um málið var rætt á Alþingi í dag, og virðist þverpólitísk samstaða um að velta við öllum steinum í málinu.
Það var fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV sem fjallaði um hlut íslenskra fyrirtækja og stjórnvalda í vopnaflutningum í flugi, í gærkvöldi.
Í Kveik í gærkvöldi kom fram að íslensk lög og alþjóðasáttmálar banni að vopn séu flutt til svæða, þar sem þau geti verið notuð gegn almenningi eða til stríðsglæpa.
Þrátt fyrir það hafi íslensk yfirvöld heimilað flutninga vopna til Sádi-Arabíu, þaðan sem þau geti borist til Jemens og Sýrlands.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag, að vopnaflutningur íslensks fyrirtækis til stríðssvæða sé „grafalvarlegt mál og stangist á við lög og utanríkisstefnu Íslands. „Íslenskt flugfélag hefur flutt vopn til Sádi-Arabíu, þaðan sem mjög miklar líkur eru á að þau hafi borist til Jemens og Sýrlands. Jemen og Sýrlandi er lýst sem sláturhúsum heims af fráfarandi mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna. Það verður að velta við hverjum steini hér, gefa skýr skilaboð um að Ísland leyfi enga undanþágu frá vopnaflutningum eða alþjóðlegum samkomulögum sem við höfum undirgengist, sem bitna á sýrlenskum börnum og konum, og í Jemen, sem eru helstu fórnarlömb þessa stríðsátaka,“ sagði Rósa Björk á Alþingi í dag.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók í sama streng og sagði málið alvarlegt, og það yrði skoðan ofan í kjölinn.