„Prófkjör í flokki er svo langt í burtu frá þingmannsstarfinu að það að mínu mati ætti ekki að vera fullgilt ferðatilefni. Ekki nema að þú ættir önnur erindi með.“ Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut í kvöld klukkan 21. Umræðuefni þáttarins eru fríðindakostnaður þingmanna, sem leynd hefur verið yfir en nú stefnir í að verði gerður, að minnsta kosti að mestu, opinber. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum í spilaranum hér að ofan.
Fríðindamálið svokallaða hófst af alvöru þegar Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata sem er einnig gestur þáttar kvöldsins, fékk svar við fyrirspurn um endurgreiddan aksturskostnað þingmanna 8. febrúar síðastliðinn. Þar kom m.a. fram að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði þegið 4,6 milljónir króna í endurgreiðslur í fyrra. Hann opinberaði í viðtali fyrr í mánuðinum að hann hefði þegið endurgreiðslur frá þinginu fyrir keyrslu í tengslum við prófkjör og sem fór fram vegna þáttagerðar fyrir sjónvarpsstöðina ÍNN.
Það verði þó alltaf erfitt að afmarka hvað eigi að endurgreiða og hvar eigi að draga mörkin. Hann segir að þingheimur eigi eftir að fara yfir ýmis álitaefni þessu tengt. „Eins og það hvort að setja eigi því skorður hvað þingmenn geti ferðast á kostnað þingsins mánuðinn fyrir kosningar, þegar þingið er farið heim. Eða frá þeim tíma sem þing lýkur störfum og kosningabarátta hefst, eiga þeir þá á að vera meira á eigin vegum en nú er? Eigum við bara að hafa það skýrt að þátttaka í prófkjörum er ekki tilefni til að senda inn eigin reikning?“