Hægt er að bæta áhættudreifingu í sjóðsöfnunarkerfi lífeyrissjóðakerfisins með því að dreifa iðgjöldum og þar með lífeyrisréttindum hvers launþega á fleiri en einn sjóð. Þetta gæti haft mikla kosti í för með sér.
Þetta segir Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi viðskiptaráðherra, í ítarlegri grein í Vísbendingu, sem kemur til áskrifenda á morgun.
Gylfi hefur fjallað í tveimur ítarlegum greinum í Vísbendingu um stöðu lífeyriskerfisins, á undanförnum vikum og mánuðum, og er þetta þriðja greinin í röðinni.
Í grein sinni fjallar Gylfi um stöðu lífeyrissjóðanna, og misjafna ávöxtun þeirra. „Misgóð ávöxtun sjóða og þar með misháar lífeyrisgreiðslur hefur jafnframt áhrif á gegnumstreymiskerfið sem rekið er samhliða sjóðsöfnunarkerfinu vegna þeirrar tekjutengingar sem beitt er í því kerfi. Lágar lífeyrisgreiðslur vegna lélegrar ávöxtunar kalla að öðru jöfnu á hærri greiðslur úr gegnumstreymiskerfinu. Í því felst vitaskuld einhver áhættuvörn fyrir lífeyrisþega og áhætta fyrir ríkissjóð, þ.e. skattgreiðendur. Áhættuvörnin er þó mjög takmörkuð vegna þess hve veikburða gegnumstreymisstoðin er í lífeyriskerfi landsmanna. Tiltölulega einfalt væri, frá sjónarhóli hagfræðinnar, að ná fram miklu betri áhættudreifingu í sjóðsöfnunarkerfinu án þess að því þyrfti að fylgja neinn kostnaður sem máli skiptir. Því væri hægt að ná fram með því að dreifa iðgjöldum og þar með lífeyrisréttindum hvers launþega á fleiri en einn sjóð. Því myndu fylgja miklir kostir. Gallarnir, og það sem væntanlega myndi helst standa í vegi fyrir að hrinda slíkri breytingu í framkvæmd, er að hún myndi kalla á nokkra uppstokkun á kjarasamningum og jafnvel tengslum verkalýðshreyfingar við lífeyrissjóði. Auk þess þyrfti eitthvað að breyta utanumhaldi, tölvukerfum og slíku en kostnaður við það yrði þó vart umtalsverður í samanburði við umsvif kerfisins. Breytingin væri hins vegar ótvírætt almennt til hagsbóta fyrir launþega, félagsmenn verkalýðsfélaganna,“ segir Gylfi meðal annars í greininni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.