Fimm menn voru í dag fundnir sekir í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis í héraðsdómi Reykjavíkur. Þeir eru Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, og þrír fyrrverandi miðlarar, þeir Jónas Guðmundsson, Valgarð Már Valgarðsson og Pétur Jónasson.
Lárusi var ekki gerð frekari refsing en hann hefur þegar hlotið sex ára dóm í öðrum málum, sem er hámarksrefsirammi. Jóhannes hlaut eins árs dóm, Jónas hlaut eins árs skilorðsbundin dóm, Valgar var dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi og Pétur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Málið snýst um atburði sem áttu sér stað fyrir um áratug síðan. Ákæran í málinu var gefin út í mars í 2016. Með útgáfu hennar var það staðfest að rökstuddur grunur væri um að allir stóru bankarnir þrír hafi stundað umfangsmikla markaðsmisnotkun fyrir hrun. Raunar er það meira en rökstuddur grunur. Þegar hafa fallið þungir dómar vegna markaðsmisnotkunar í Glitni, Landsbanka Íslands og Kaupþingi.
Hægt er að lesa ákæruna hér í heild sinni.
Umfangsmikil og þaulskipulögð brot
Í ákærunni sagði að meint brot hinna ákærðu hafi verið mjög umfangsmikil, þaulskipulögð, hafi staðið yfir í langan tíma og hafi varðað gríðarlega háar fjárhæðir. Þar var tilgreint að hinir ákærðu hefðu með skipulögðum hætti keypt gríðarlegt magn af bréfum í Glitni til að halda markaðsverði þeirra uppi.
Lárusi var síðan gefið að hafa losað um hlutina, og með því misnotað aðstöðu sína sem forstjóri, með því að selja þau til félaga í eigu margra af stærstu viðskiptavinum bankans á þessum tíma og alls 14 félaga í eigu stjórnenda Glitnis.
Í nánast öllum tilvikum lánaði Glitnir að fullu fyrir kaupunum og tók einungis veð í bréfunum sem var verið að selja. Markaðsáhætta þeirra var því áfram að fullu hjá Glitni.
Héraðssaksóknari hélt því fram í ákæru að mennirnir fimm hafi allir haft „verulega persónulega hagsmuni“ af því að verð á hlutabréfum í Glitni héldist hátt, auk þess sem Lárus Welding hefði haft mikla hagsmuni að halda vellaunuðu starfi sínu í bankanum. Lárus hafi ekki átt hlut í Glitni en hann hafi hins vegar gert kaupréttarsamning þegar hann skrifaði undir ráðningarsamning árið 2007, þá rétt rúmlega þrítugur að aldri. Þá hafi hann fengið 300 milljón króna eingreiðslu þegar hann réð sig til starfa hjá Glitni og átti að fá aðra slíka 1. febrúar 2009.
Hinir starfsmennirnir fjórir áttu allir hlut í Glitni eða kauprétti. Einn miðlaranna, Valgarð Már, fékk 20 milljóna króna ráðningarbónus þegar hann réð sig þangað frá Kaupþingi í ágúst 2007. Hann átti þá einn mánuð í að verða 27 ára gamall.
Dæmdir í Stím-málinu
Tveir hinna ákærðu, Lárus og Jóhannes, hafa áður hlotið þunga dóma vegna hrunmála. Lárus var dæmdur í fimm ára fangelsi í héraðsdómi í svokölluðu Stím-máli í desember síðastliðnum. Jóhannes hlaut tveggja ára dóm í sama máli. Þeirri niðurstöðu hefur verið áfrýjað til æðra dómstigs.
Í því máli voru þeir, ásamt Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni sem hlaut 18 mánaða dóm, ákærðir vegna lánveitinga sem Glitnir veitti Stími til að kaupa hlutafé í bankanum, en hlutabréfakaup Stíms í Glitni og FL Group námu tæpum 25 milljörðum króna. Kaupin voru að stórum hluta fjármögnuð með láni frá Glitni og hlutabréfin sjálf voru eina veðið.