Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni við setningu landsfundar Samfylkingarinnar, á Reykjavík Natura, að flokksmenn gerðu sér kannski ekki grein fyrir því, hversu mikið afrek hefði verið unnið að undanförnu. Flokkurinn væri kominn aftur á „hnén“ og það væri meira en margir hefðu reiknað með.
Þingflokkurinn væri samstilltur hópur hæfileikafólks, sem vissulega mætti verið stærri. „Við erum mætt aftur til leiks, ætlum okkur góðan árangur í sveitarstjórnarkosningum í vor og verða aftur sá burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum sem almenningur í landinu þarfnast,“ sagði Logi.
Hann var einn í kjöri til formanns og hlaut öll greidd atkvæði, og þannig einhuga stuðning flokksins.
Hann gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega, og sagði hana starfa eftir leyndarhyggju og augljóst væri, að hún réði ekki við það verkefni að byggja upp félagslegan stöðugleika. Það segði ákveðna sögu að stærstu aðildarfélög ASÍ vildu segja upp kjarasamningunum.
Hann gerði einnig #MeToo byltinguna að umtalsefni og sagði að Samfylkingin ætti að vera kvennfrelsisflokkur og opinn fyrir þeim straumum og kröftum sem byltingin hefði leitt úr læðingi. „Konur sem hafa stigið fram á liðnum mánuðum, undir merkjum #METOO, eru skýrt dæmi um það hverju samstaða getur skilað. Það hefur verið magnað að verða vitni að þeim krafti sem kallar á breytta stjórnmálamenningu og betri aðstæður kvenna í lífi og starfi. Samfylkingin á að vera farvegur fyrir aukið kvenfrelsi og jafnrétti almennt. Heilbrigt samfélag okkar sjálfra er ágætis prófsteinn á það hvort okkur er treystandi fyrir landsstjórninni eða að reka sveitarfélag,“ sagði Logi, og hvatti flokksmenn til dáða fyrir sveitarstjórnarkosningarnar framundan. „Að lokum vil ég segja þetta. Það er heiður að sitja landsfundinn með ykkur um helgina. Ég veit ekki hvort þið gerið ykkur grein fyrir því hvaða þrekvirki hvert og eitt ykkar hefur unnið. Saman hefur okkur tekist að reisa flokkinn uppá hnén aftur. Það voru alls ekki allir sem spáðu því. Og fyrir það vil ég þakka ykkur öllum,“ sagði Logi.