Samgöngustofa segir Sádi-Arabíu ekki flokkast sem viðkvæmt átakasvæði.
Í minnisblaði frá Samgöngustofu, sem lagt var fram í morgun á sameiginlegum fundi utanríkismálanefndar Alþingis og umhverfis- og samgöngunefndar, kemur fram að óheimilt sé á grundvelli alþjóðareglna að flytja hergögn um loftrými ríkis án heimildar viðkomandi ríkis. Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu kom fyrir nefndirnar í morgun að ræða vopnaflutninga íslenska flugfélagsins Air Atlanta til Sádi-Arabíu. Þannig þarf samþykki frá ríkjum sem hergögn eru send frá og til auk þess sem öll ríki sem flogið er yfir þurfa að veita heimild.
Í fréttaskýringaþættinum Kveik á þriðjudag var greint frá því að íslensk yfirvöld hafi þrátt fyrir þetta bann heimilað flutninga vopna til Sádi-Arabíu, þaðan sem þau berast til Jemens og Sýrlands.
Samgöngustofa veitir leyfi til flutnings hergagna með borgaralegum loftförum. Í minnisblaðinu segir að forsendur þeirra leyfisveitinga sé að stuðla að flugöryggi með eftirliti samkvæmt alþjóðlegum kröfum.
Samöngustofu berist reglulega upplýsingar sem varði flugöryggi frá Flugöryggisstofnun Evópu um átakasvæði, en Sádi-Arabía hefur ekki verið á þeim lista. Landið hafi ekki verið flokkað sem viðkvæmt átakasvæði svo Samgöngustofu sé kunnugt um, né sé það á lista um ríki þar sem þvingunarráðstöfunum Sameinuðu þjóðanna sé beitt.
„Engin tilmæli hafa borist Samgöngustofu um sérstaka skoðun á þróun eða ástandi í tilteknum heimshlutum, enda ekki hlutverk stofnunar um samgönguöryggi að leggja slíkt pólitískt mat,“ segir í minnisblaðinu.
Þá segir að Air Atlanta hafi starfað í Sádi-Arabíu í áratugi og sinnt flutningum á fólki og farmi án þess að athugasemdir hafi verið gerðar eða leiðbeiningar umfram reglugerð borist. Sé horft til annarra Norðurlanda sjáist að til dæmis stjórnvöld í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi hafi undanfarið litið til endurskoðunar á sínum reglum um útflutning á hernaðargögnum til ríkja eins og Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Jemen. Vinna við endurskoðun reglugerðar um flutning hergagna með loftförum hófst í árslok 2017 og stendur yfir undir stjórn samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Í samtali við RÚV eftir fundinn í morgun sagði Þórólfur að beiðnir um vopnaflutninga hafi mest verið 17 á einu ári. „Þessar beiðnir eða þessir flutningar, þetta hefur verið engin eða ein til að byrja með, að meðaltali sýnist okkur 5-10, ég held að það hafi verið mest 17 á einu ári. Air Atlanta sem gerir út 17 þotur flýgur tugi fluga á hverjum degi, þannig að sjálfu sér er þetta brot af þeirri starfsemi sem Air Atlanta hefur,“ sagði Þórólfur við RÚV. „Ég tel að það sé þeirra samfélagslega ábyrgð að upplýsa okkur og koma með þær upplýsingar sem þið fréttamenn hafið beðið um, í fullum rétti finnst mér,“ segir Þórólfur.